María Kristjánsdóttir leikhúsgagnrýnandi segir að Þjóðleikhúsið sé nátttröll sem hneppt sé í fjötra laga. „Ég vil fullyrða það að það eru bara tvö lifandi leikhús í borginni og það eru Tjarnarbíó og Borgarleikhúsið. Þjóðleikhúsið er bara nátttröll að mínu mati. Það er keyrt inn í apparat og lög sem hæfa ekki nútímanum.“
Grímuverðlaunin verða veitt í kvöld, uppskeruhátíð sviðslistanna á Íslandi. Þorvaldur Sigurbjörn Helgason og María Kristjánsdóttir, leikhúsgagnrýnendur Víðsjár, settust niður með þáttastjórnanda og veltu vöngum yfir Grímunni og stöðu íslensks leikhúslífs í dag.
„Þetta er alltaf svolítið fyrirsjáanlegt, hvað er tilnefnt,“ segir Þorvaldur. „Það er þessi stóra sýning, sem allir eru einhvern veginn sammála um að sé best, í ár er það Ríkharður III og í fyrra var það Guð blessi Ísland.“
Mörg ný íslensk leikverk í ár
Þau eru sammála um að umtalsverður fjöldi nýrra íslenskra verka á árinu sé gleðiefni. „Sum leikár hefur hallað verulega á íslenska leikritun,“ segir Þorvaldur en segist sakna nokkurra nýrra íslenskra verka á tilnefningarlistanum í ár.
„Ég hefði viljað sjá eitt verk tilnefnt, sem ég sé hvergi, en það er verkið Núna! í Borgarleikhúsinu, sem var mjög sterkt verk. Þrjú verk eftir unga, nýja íslenska höfunda, sterk sýning og flott framtak hjá Borgarleikhúsinu,“ segir Þorvaldur.
„Já mér finnst Borgarleikhúsið hafa komið sterkt inn með íslensk leikverk í vetur,“ segir María, „en Tjarnarbíó hefur eiginlega haft forystuna, því það byrjaði með Griðarstað eftir Matthías Tryggva, sem er afskaplega skemmtilegt verk og vel skrifað af svona ungum manni og það sama má segja um verkið hans í þessari þriggja verka syrpu, það fannst mér líka bera af.“
María nefnir einnig Jón Magnús Arnarson og Sóleyju Ómarsdóttur sem spennandi ný leikskáld.
„Eins fannst mér hlutur kvenna í íslensku leikhúsi hafa styrkst í vetur, en þó er einkennilegt að Pálína Jónsdóttir sé hvergi á blaði, en hún stóð sig afar vel í Þjóðleikhúsinu. Hún er einn fyrsti menntaði leikstjórinn okkar um langa hríð.“
Tvö lifandi leikhús í borginni
Talið barst að sjálfstæðum leikhópum og fyrirkomulagi varðandi tilnefningar, sviðsverk eru ekki sjálfkrafa í Grímuúrvali, heldur þurfa aðstandendur að greiða sérstaklega fyrir að vera tekin til greina. Það er því erfitt að vita hvað veldur því þegar einhver verk, sérstaklega úr sjálfstæðu senunni, eru ekki á blaði.
„En ég vil fullyrða það að það eru bara tvö lifandi leikhús í borginni,“ segir María Kristjánsdóttir „og það er Tjarnarbíó og Borgarleikhúsið. Þjóðleikhúsið er bara nátttröll að mínu mati. Það er keyrt inn í apparat og lög sem hæfa ekki nútímanum. Það vantar alveg nýtt Þjóðleikhús, það þarf að umbylta því.“
María segir að Þjóðleikhúsið glími við svipuð vandamál og mörg leikhús í Evrópu en mismunandi sé tekið á málunum. Hún nefnir borgarleikhúsið í Zürich sem dæmi um leikhús sem tekst vel á við vandann.
„Er ekki bara vandamálið að það vantar svolítið listrænan metnað?“ spyr Þorvaldur. „Það virðist vera svolítið fast í því að tikka í einhver box, gera öllum til geðs, en þetta er bara svo óspennandi.“
Þarf að leysa Þjóðleikhúsið úr ánauð laga
María segir að vandamálið sé stærra en stjórn leikhússins. „Það er hneppt í fjötra laganna sem það þarf að starfa eftir og apparatsins sem það vinnur innan. Þetta er bara niðurnjörvað í gamalt form.“ Hún segir að Þjóðleikhúsið þurfi nýtt hlutverk. „Það á ekki að vera í samkeppni við Borgarleikhúsið, gera einn söngleik, eitt barnaleikrit, það á að fá eitthvað alveg nýtt hlutverk sem hentar okkur sem Íslendingum á þessum nýju tímum.“
„Ef þetta á að endurspegla þjóðina, af hverju eru þá til dæmis bara verk framleidd í Reykjavík? Af hverju skoða þau ekki betur stöðu innflytjenda og breytta þjóðfélagsskipun í landinu? Það eru svo margar spurningar sem þarf að velta upp,“ bætir Þorvaldur við.
Óvæntar tilnefningar í flokki Leikrits ársins
Í fyrsta sinn í sögu Grímuverðlaunanna er útvarpsverk tilnefnt í flokknum Leikrit ársins. Þorvaldur segir að sér hafi fundist ánægjulegt að sjá það sem og hinar tilnefningarnar í þeim flokki. „Þær eru mjög óvæntar og skemmtilegar. Þetta eru allt sýningar í minni kantinum, til dæmis Griðarstaður eftir Matthías Tryggva og tvær sýningar frá Tjarnarbíói, líka Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur, það er bara ein sem maður skyldi kalla svona stórt verk, það er Súper eftir Jón Gnarr.
Er kynjaskipting barn síns tíma?
Þorvaldur veltir upp þeirri spurningu hvort tími sé kominn til að sameina flokkana Leikari ársins og Leikkona ársins. „Það hlýtur bráðum að koma að því að það muni koma inn leikarar í leikhúsin sem tilheyra hvorugum flokknum, eða báðum, og þá kemur vandamálið; hvert á að setja það fólk. Mér finnst þetta bara ekki alveg passa, lengur.“
María segir að á meðan leikhúsin sýni mestmegnis leikverk þar sem karlmenn fara með flest aðalhlutverk sé enn ástæða til að halda þessum flokkum aðskildum.
Hvað endurspeglar þjóðina í raun?
Talið berst að inngildingu og fjölbreytileika, bergmál frá spjalli við Köru Hergils og Friðrik Friðriksson úr þætti gærdagsins, og þau eru sammála um að mikilvægt sé að huga að ólíkum þjóðfélagshópum í leikhúsunum. „Hvað eru mörg prósent þjóðarinnar Pólverjar?“ spyr María og Þorvaldur tekur í sama streng: „Af hverju setur Þjóðleikhúsið ekki upp sýningar á pólsku eða með pólskum texta? Þetta er stærsti minnihlutahópur á Íslandi.“