Smálánafyrirtæki hafa beinan aðgang að bankareikningum viðskiptavina sinna og dæmi eru um að bankareikningar fólks hafi verið tæmdir af smálánafyrirtækjum án þess að fólk verði þess vart. Neytendasamtökin hafa fengið fjölda mála inn á sitt borð sem snúa að smálánum. Stór hluti þeirra mála eru mjög snúin og varða réttindi skuldara.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann segir að smálánafyrirtæki hafi beinan aðgang að bankareikningum skuldara og taki til sín fjármuni um leið og þeir eru lagðir inn á reikning þeirra. Smálánafyrirtækin hafi svarað þannig að viðskiptavinir veiti þeim heimild til slíkra aðgerða í notendaskilmálum sínum. Breki segir að slíkt sé ekki í neinu samræmi við lög.

Hann segir að dæmi séu um að allt að 35.000 prósent vextir séu á smálánum fólks umfram seðlabankavexti. Hins vegar kveði lög á um að veita megi lán með að hámarki 50 prósent vöxtum auk seðlabankavaxta.

Breki segir að Neytendasamtökin vinni nú að því að fá banka og fjármálastofnanir með sér í lið til að uppræta slíka starfsemi.

Viðtal við Breka Karlsson má hlusta á hér að ofan.