Helgi S Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, var skráður eigandi félags á Panama ásamt Finni Ingólfssyni fyrrum Seðlabankastjóra árið 2007. Landsbankinn stofnaði félagið fyrir þá að því er virðist til þess að lána fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum. Félagið hefði greitt skatt í Panama hefði það haft tekjur, sem aldrei varð að sögn Finns.
Þetta kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu. Kastljós fjallaði um efni þeirra í kvöld í samstarfi við Reykjavik Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.
Lán í Kaupþingi
Helgi S Guðmundsson var skipaður í bankaráð Seðlabankans á vordögum 2003 og gegndi formennsku í ráðinu frá 2006 fram á mitt ár 2007. Helgi sem nú er látinn var einnig áhrifamaður í S-hópnum þegar hópurinn keypti Búnaðarbankann en samkvæmt fréttum DV fékk hann 200 milljóna króna lán til hlutabréfakaupa í Búnaðarbankanum stuttu eftir einkavæðingu. Helgi sat þá í bankaráði Seðlabankans.
Panamafélag með Finni
Eitt af verkefnum Seðlabankans var og er að hafa eftirlit með starfsemi banka og fjármálafyrirtækja á markaði. Á meðan Helgi stýrði bankaráði Seðlabankans árið 2007 keypti hann í félagi við Finn Ingólfsson, fyrrverandi Seðlabankastjóra, hlut í Landsbankanum með láni úr sama banka. Framkvæmt viðskiptanna var þó ekki alveg svona einföld.
Í byrjun febrúar 2007 óskaði starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg eftir því við Mossack Fonseca að fá að kaupa eitt af fyrirtækjum félagsins í Panama - Adair SA - og óskar eftir því að Finni Ingólfssyni og Helga S Guðmundssyni yrði veitt umboð fyrir hönd félagsins.
Keyptu í bankanum
Það þýddi einfaldlega að þótt fimm einstaklingar væru á pappírunum skráðir stjórnendur Adair, var raunveruleg stjórn þess og eignarhald, í höndum Helga og Finns. Eftir því sem næst verður komist var tilgangur félagsins að kaupa og eiga hlutabréf í Landsbankanum. Bréf sem bankinn lánaði auk þess fyrir.
Finnur Ingólfsson var um árabil þingmaður, varaformaður Framsóknarflokksins, og iðnaðar- og viðskiptaráðherra til 1999. Þá var Finnur skipaður Seðlabankastjóri. Stuttu fyrir einkavæðingu bankanna 2002, varð Finnur forstjóri VÍS.
„Hefði borgað í Panama“
VÍS tók síðan þátt í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum stuttu síðar. Hann vildi ekki veita Kastljósi viðtal þegar eftir því var leitað og kvaðst ekki vilja upplýsa nánar um viðskipti þeirra Helga en hann gerði í eftirfarandi svari:
„Tilgangur Adair félagsins voru fjárfestingar. Félagið fjárfesti og var skuldsett og tapaði miklu á fjárfestingunum. Því urðu aldrei til tekjur í félaginu. Félagið hefði borgað skatt í Panama þar sem það var með heimilisfesti hefði komið til þess að einhver skattskyldur hagnaður hefði orðið til í félaginu sem ekki varð enda starfstími þess mjög stuttur. Hefðu eigendur félagsins fengið eitthvað út úr félaginu sem ekki varð þá hefðu þeir borgað fjármagnstekjuskatt af því á Íslandi.“
Kannast ekki við Lozanne
Í lok árs 2007 var svo aflandsfélagið Lozanne inc skrásett á Panama. Finnur Ingólfsson var einn skráður prókúruhafi og þar með raunverulegur stjórnandi þess, að beiðni starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg. Engar frekari upplýsingar finnast um félagið. Sjálfur kannast Finnur ekkert við félagið. Segist aldrei hafa heyrt nafn þess og veit ekki hvers vegna nafn hans kemur þar fram.