Helgi Tómasson og San Francisco-ballettinn sem hann hefur stýrt í 34 ár eru nú að Evrópufrumsýna tíu ný dansverk í Sadler's Wells-leikhúsinu í London. Í verkunum er meðal annars tónlist Bjarkar Guðmundsdóttur notuð og það er dansað í strigaskóm.
„Fyrir tæpu ári síðan var ég í San Francisco með festival þangað sem ég bauð tíu danshöfundum til að búa til ný verk fyrir dansflokkinn sem voru sýnd á minna en tveimur vikum, sem er ótrúlegt þegar maður hugsar um það,“ segir Helgi um tilurð verkanna. Þegar hugmyndin um að flytja einhver verkanna til Lundúna hafði Sadler's Wells samband og vildi fá flest þeirra. „Þetta tókst alveg stórkostlega og mikið skrifað um það. Þetta er eitthvað sem hefur eiginlega aldrei verið gert áður, að ballettflokkur taki tólf verkefni á svona stuttum tíma, eftir tíu danshöfunda.“
Var þetta viðleitni til að tengja ballettinn við nútímann? „Já, og líka það að ég hef alltaf haft áhuga á nýjum verkefnum. Því maður getur ekki alltaf verið að sýna gömlu ballettana, Svanavatnið, Þyrnirós og svoleiðis. Sem eru fyrsta flokks verk en ég get ekki verið safn, við verðum alltaf að líta fram í tímann og sjá hvað hægt er að búa til og hvað verður úr því. Og þá skapast kannski eitthvað sem getur kallast sígilt, klassík. Það er það sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á.“
Ballett er aldagamalt og mótað dansform en undir stjórn Helga hefur San Fransisco-ballettinn lagt áherslu á ný verk og að vera í tengslum og samtali við nútímann. Tíu danshöfundar voru kallaðir til og afraksturinn sýndur á fjórum sýningum sem standa til sunnudags. Stundum er spurt hvort ballettinn eigi einhverja framtíð, af því að hann er svo strúktúrerað listform og lítið hægt að sveigja hann þar til hann hættir að vera ballett. Helgi blæs á slíkar vangaveltur. „Þetta sem ég hef alltaf verið að reyna að gera, að skapa eitthvað nýtt í ballettinum. Tæknina sem við fylgjumst með frá byrjun, þessi klassísku spor og svoleiðis, hvernig er hægt að nota þau á nútímamáta? Og í nútímaverkefni, hugmyndir, ég er að reyna að komast frá þessari hefð sem mest. Jú, ég held henni í Svanavatninu eða Þyrnirós, hún verður að vera þar, en þessi nýju verkefni eru byggð á meira frelsi, freedom of movement. Og ég hef mikinn áhuga á því.“
Helgi er nú kominn á áttræðisaldur en stýrir dansæfingum hvers dags, líkt og hann gerir í San Francisco. „Það er nauðsynlegt til að fólkið í dansflokknum finni að ég er að stjórna þeim, ég sé um ferilinn. Svoleiðis að þau líti til mín til að komast áfram og fá betri dansrullur, því ég ákveð allt hér. Ég er einráður,“ segir Helgi og hlær við.
Eitt verkanna tíu var samið við tónlist Bjarkar þegar Helgi bað breska danshöfundinn Arthur Pita um að semja fyrir ballettinn. „Hann sagðist vilja nota tónlist Bjarkar en þyrfti leyfi til að nota músíkina. Svo ég tók það bara á mig að skrifa bréf til Bjarkar og hún svaraði að það væri allt í lagi með það. Svo hann var alveg himinlifandi að geta notað tónlist Bjarkar, sem hann vildi fá í byrjun.“
Eitt verkanna er svo dansað á strigaskóm í stað hefðbundinna balletskóa. „Það er þetta sem ég er að tala um, það er hægt að breyta, þarf ekki allt að vera svo stíft og bundið við hefðina,“ segir Helgi. Þegar verkin voru frumsýnd í Bandaríkjunum þau svo lofsamlega dóma. „Já, mér var sagt það, ég les ekki dómana.“ Þú lest ekki dómana? „Nei, hef ekki gert það í mörg ár.“ Hvers vegna ekki? „Æi, það er bara alltof mikið stress við það og segja, af hverju gerir Helgi ekki svona og af hverju fór hann ekki þessa eða hina leið og það er ómögulegt að hlusta á svoleiðis. Ég verð bara að fara með minni eigin hugsun og hvað mér finnst rétt. Á meðan ég stjórna þessum flokki þá verður það svoleiðis.“
Helgi hefur stýrt San Fransisco-balletinum í 34 ár, lengst núverandi stjórnenda utan John Neumeier sem hefur verið í 50 ár hjá Hamborgar-ballettinum. Hann er kominn á áttræðisaldur en er hissa á því hversu oft hann er spurður í viðtölum hvort hann sé að fara að hætta. „Ef ég er að starfa við það sem ég hef gaman af, það gengur vel og ég hef heilsu til, til hvers ætti ég að hætta, til hvers? Að gera ekki neitt? Ég get ekki hugsað mér að gera ekki neitt, ég hef unnið alla mína ævi og þannig held ég áfram eins lengi og ég get.“
Brynja Þorgeirsdóttir ræddi við Helga Tómasson og danshöfundinn Arthur Pita í Menningunni. Hægt er að horfa á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.