Íbúar á Bakkafirði snúa nú vörn í sókn og verður þar brátt opnuð verslun og kaffihús. Heimamenn vilja finna leiðir til að hefja skólastarf í bænum á nýjan leik; annars verði erfitt að fá barnafólk til að setjast þar að.
Á Bakkafirði eiga næstum 70 manns lögheimili en þar búa um 50 á veturna. Skólanum var lokað fyrir tveimur árum og í skólahúsinu hefur nú verkefnisstjóri brothættra byggða aðstöðu. Átakið Betri Bakkafjörður fær 40 milljónir á ári næstu 5 árin og þegar hefur verið sett upp gisting fyrir ferðamenn í hluta skólans.
„Við teljum að það séu tækifæri í ferðaþjónustunni, þetta er stærsti atvinnuvegur okkar þjóðar og við höfum ekki fengið mikið af því en með Norðurstrandaleið þá held ég að það sé möguleiki að efla hana. Síðan er náttúrulega hafið hér úti fullt af tækifærum, það eru háhyrningar, það eru hvalir, fuglar og fiskur sem hægt er að markaðssetja,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnisstjóri betri Bakkafjarðar.
Eftir að fiskvinnslan Toppfiskur fór í þrot eru væntingar bundnar við fiskvinnsluna Halldór en þar er fiskur saltaður og seldur til Ítalíu. Gert er ráð fyrir auknum byggðakvóta til Bakkafjarðar og vinnslan gæti bætt við sig fólki en til þess þarf innviði. „Ég held að það sé mikilvægast ef við ætlum að fá til okkar ungt fólk að þá þarf að vera sú aðstaða sem þarf fyrir ungt fólk. Það þarf skóla, það þarf leikskóla og það þarf almenna þjónustu. Það er ekki hægt að keyra öllum eitthvert annað en þeir eiga heima. Það er ekki hægt,“ segir Áki Guðmundsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Halldórs á Bakkafirði.
„Ég myndi segja að það vanti helst leikskóla og skóla. Búð og svoleiðis. Þetta er rosa friðsælt og maður er rosa frjáls og gott veður oft og mér finnst bara æðislegt að vera hérna þó það vanti allt það helsta,“ segir Rakel Ýr Reynisdóttir, íbúi á Bakkafirði.
„Já, ég er alveg sammála. Það vantar aðstöðu fyrir börn til að geyma þau svo að maður geti farið kannski að vinna. Leikskóla og skóla,“ segir Viktoría Katrín Oliversdóttir.
Börnum er ekið um 40 kílómetra leið í skóla á Þórshöfn eftir að Langanesbyggð treysti sér ekki lengur til að halda úti skólanum á Bakkafirði. „Sveitarfélagið þarf að hafa burði til að gera það. Það kostar mikið og maður skilur afstöðu manna að hér hafi þurft að loka ef það eru fá börn. Það er dýrt en þetta getur verið landsverkefni hjá okkur; þetta er ekki eini staðurinn sem hefur þurft að loka skóla í þéttbýliskjarna. Það væri kannski markmið okkar að vinna með yfirvöldum menntamála í landinu að finna leiðir fyrir smærri byggðarlög að reka skóla,“ segir Ólafur Áki.
Engin verslun hefur verið á Bakkafirði en í gegnum brothættar byggðir eru endurbætur á gamla verslunarhúsnæði staðarins langt komnar og er stefnt að opnun um næstu mánaðamót. „Hérna á að vera veitingastaður, pöntunarþjónusta og svona kaffihús þannig að þetta verður svona miðdepillinn í bænum, hálfgert menningarhús. Það skiptir miklu máli fyrir svona samfélag. Það er það sem nútímafólk vill hafa og við viljum hafa það líka hér á Bakkafirði,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnisstjóri betri Bakkafjarðar.