Þorsteinn Víglundsson, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að að bæta verði gagnsæi í ákvörðunum kjararáðs. Hann gagnrýnir að þessir hópar sem kjararáð ákveður kjörin fyrir dragist löngum aftur úr og séu svo rifnir upp í háum hækkunum á nokkurra ára fresti.

Þorsteinn segir að búast megi við því að hann beiti sér fyrir breytingum á lögunum um kjararáð á þingi. „Já það má alveg búast við því. Mér finnst þetta meingallað fyrirkomulag og það hefur verið deilt um þetta áratugum saman. Umræðan um úrskurði kjaradóms þar áður var sú sama og vakti yfirleitt mjög mikla reiði þegar þessar ákvarðanir komu. Það verður að koma þessu í einhvern annan farveg sem meiri sátt getur þá ríkt um.“

Í lögunum segir að tryggja eigi að þessir hópar njóti sambærilegrar launaþróunar og aðrir.  Þorsteinn gagnrýnir að upplýsingar um þessi viðmið séu ekki aðgengilegar. „Það verður að vera mjög skýrt til þess að ákvarðanir þess séu þá yfir vafa hafnar hvað þetta viðmið varðar. Það vantar alla launatölfræði og að hún sé aðgengileg á vef ráðsins svo hægt verði að sjá hvernig þessir einstöku hópar sem ráðið úrskurðar um að þróast í samræmi við þessi grunnviðmið laganna, það er að segja annarsvegar launaþróun á vinnumarkaði almennt og sér í lagi launaþróun þeirra hópa opinberra starfsmanna sem semja um kaup og kjör í kjarasamningum.“

Verkalýðsleiðtogar vilja að þessar hækkanir verða dregnar til baka. Þær geti haft áhrif á samningagerð framundan. Þorsteinn segir að fara þurfi yfir það vandlega, sérstaklega ríflega hækkun á launum þingmanna, sem hækkað hafi meira en ráðherra og forseta miðað við launaþróun síðustu ára. Þorsteinn telur mögulegt að fara yfir þetta í þinginu. „Flest er nú hægt ef menn vilja á annað borð fara út í það. Já, ég held að það verði alveg gerlegt að fara yfir.“