Forseti bæjarráðs í Reykjanesbæ, Friðjón Einarsson, er hlynntur því að íbúar fái að kjósa um framtíð stóriðju í Helguvík. Hann segir að Stakksberg, eigandi kísilverksmiðjunnar, þurfi að líta í eigin barm. Stakksberg er í eigu Arion banka sem fjármagnaði United Silcon að stórum hluta á sínum tíma.

Hátt í þrjú þúsund hafa skrifað undir hvatningu til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um að efna til bindandi íbúakosningar um stóriðju í Helguvík. Rafrænni undirskriftasöfnun lauk á miðnætti. Undirskriftum á pappír verður safnað til áramóta.

„Hvort sem að nógu margir skrifa undir eða ekki þá höfum við alltaf sagt að við viljum leita álits íbúa með framtíðina í Helguvík og það hefur ekkert breyst hjá okkur. Þannig að já, ég held að kosning fari fram,“ segir Friðjón.

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík standa að söfnuninni. Þau vilja að íbúar fái að kjósa um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs, áður United Silicon, fái að hefja starfsemi á ný og sömuleiðis um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu. Ef 20 prósent kosningabærra íbúa óska slíkrar atkvæðagreiðslu skulu bæjaryfirvöld verða við því innan árs, samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru um 13.500 íbúar 18 ára og eldri í Reykjanesbæ í byrjun árs og því þurfa samtökin að safna um 2.700 undirskriftum. Undirskriftirnar verða svo sendar til Þjóðskrár sem fer yfir þær.

Ósammála túlkun Stakksbergs

Verksmiðjan var áður í eigu United Silicon. Þegar fyrirtækið varð gjaldþrota tók Stakksberg við rekstrinum. Stakksberg er í eigu Arion banka. Mikil mengun barst frá verksmiðjunni og fundu íbúar fyrir óþægindum vegna hennar. Umhverfisstofnun hefur aldrei haft eins umfangsmikið eftirlit með neinni starfsemi eins og þeirri sem fram fór í verksmiðjunni. Kjarninn greindi frá því í gær Stakksberg telji að íbúakosning um framtíð Helguvíkur sé ólögmæt og að ef starfsemi kísilverksmiðjunnar yrði hafnað í slíkri kosningu hafi Reykjanesbær bakað sér bótaskyldu. Bæjarfélagið er nú að skoða málin með lögfræðingum. Friðjón er á annarri skoðun en Stakksberg. 

„Ég held að þeir séu að fara í tóma vitleysu með að segja þetta; að við verðum skaðabótaskyld. Ég held að málið sé ekki þannig vaxið, ekki með okkar augum séð.“ Friðjón bendir á að skipulagsmál séu á hendi sveitarfélagsins. „Og þetta er nýr aðili og ég hef ekki trú á því að það muni hafa þau áhrif sem þau segja.“

Sér ekki mun á kísilveri og öðrum byggingum

Kjarninn greindi einnig frá því í gær að í bréfi Stakksbergs til Skipulagsstofnunar segi að breytingu á skipulagi, sem félagið hefur óskað eftir, eigi að afgreiða á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða en ekki í vinsældakosningu. Friðjón telur rangt af Stakksbergi að kalla mögulega íbúakosningu vinsældakosnginu. „Þeir eru ekki beinlínis að auðvelda sér verkið með því að kalla þetta vinsældakosningu. Skipulagsstofnun hefur sagt það mjög skýrt og það er í lögum að íbúar eiga að hafa aðild að skipulagsmálum sveitarfélagsins.“ Undanfarin fjögur ár hafi sveitarfélagið kynnt ýmsar breytingar í skipulagsmálum. Þegar íbúar hafi ekki verið þeim sammála hafi skipulaginu verið breytt. „Ég sé engan mun á þessu kísilveri og annarri byggingu. Íbúar eiga að hafa áhrif og bæjarstjórn Reykjanesbæjar er þar. Við viljum að íbúar hafi áhrif.“

Þannig að ef íbúar vilja stóriðjuna í burtu, þá telur þú að það sé mögulegt? „Þeir geta haft mikil áhrif á skipulagið hérna í Helguvik, klárlega, en það eru auðvitað fjölda mörg önnur atriði sem skipta máli en stærsta atriðið er hvað íbúar vilja já.“

Vilja gera Helguvík umhverfisvæna

Friðjón segir að bæjaryfirvöld vilji að Reykjanesbær sé blómstrandi, umhverfisvænn bær. Þau vilji endurskipuleggja Helguvík og gera hana umhverfisvæna. Þar sé nú tómt álver og sömuleiðis tóm kísilverksmiðja og nóg sé komið af slíku. Þá þurfi Stakksberg að horfa i eigin barm. „Arion banki var stærsti fjármögnunaraðili verksmiðjunnar og þeir eiga stóra sök á því hvernig fór. Þeir þurfa að horfa í eigin barm og tala með meiri virðingu um áhrif íbúa á skipulagsmál til framtíðar.“

Þannig að þú telur að það sé hægt að bakka út úr þessu án þess að greiða millljarða í skaðabætur? „Já ég vil trúa því að við þurfum ekki að borga skaðabætur.“