Rannsókn á því hvers vegna hægri hreyfill á vél WOW-air missti olíuþrýsting þegar hún var í klifri frá Keflavíkurflugvelli í nóvember á síðasta ári beinist að framkvæmd viðhalds og viðhaldsleiðbeiningum. Við rannsókn kom í ljós að vinstri hreyfillinn hafði einnig tapað allnokkrum hluta olíu sinnar en vélin var nýkomin úr viðhaldi.
Talsverður viðbúnaður var vegna atviksins. Lending vélarinnar gekk vel á Keflavíkurflugvelli en hún var á leið til Baltimore í Bandaríkjunum.
Flugmennirnir tilkynntu um bilunina 18 mínútum eftir flugtak og lýstu yfir háska. Þeir létu flugumferðarstjórn vita að þeir þyrftu að snúa aftur til Keflavíkur vegna tæknivandamála og höfðu þá slökkt á hægri hreyfli vélarinnar.
Málið er enn í rannsókn hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Í uppfærslu á vef nefndarinnar kemur fram að við skoðun á vélinni hafi komið í ljós að hægri hreyfillinn hafði tapað megnið af olíu sinni þannig að olíuþrýstingur féll. Þar að auki hafði vinstri hreyfill vélarinnar einnig tapað allnokkurn hluta olíu sinnar. „Var því um alvarlega olíuleka á báðum hreyflum flugvélarinnar að ræða.“
Rannsóknarnefndin nefnir sömuleiðis að vélin, sem er af gerðinni Airbus, hafi verið nýkomin úr viðhaldi þar sem meðal annars hafði verið unnið við olíukerfi beggja hreyfla hennar. Rannsóknin beinist því að framkvæmd viðhalds sem og viðhaldsleiðbeiningum.