Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins sagði Reykjavíkurborg hafa brotið samkomulag sveitarfélaga og ríkis um samgöngumál með því að auglýsa rammasamning í gær eitt sveitarfélaga og brjóta þannig í bága við samkomulagið. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ítrekaði að samkomulagið markaði tímamót og bað Vigdísi að spara stóru orðin.
Samkomulagið þegar brotið
Önnur umræða um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033 fer nú fram á fundi borgarstjórnar. Að lokinni umræðu verða greidd atkvæði um samgönguáætlunina og aðkomu borgarinnar að samkomulaginu.
Vigdís hefur gagnrýnt samkomulagið harðlega. Hún sagði á fundinum í dag að ekki væri rétt farið með staðreyndir í samningum. Samkomulagið hafi nú þegar verið brotið því rammasamningur um stýringu umferðarljósa hafi verið auglýstur í gær. Hún sagði samkomulagið fela í sér rándýra óvissuferð á kostnað skattgreiðenda.
„Hvers vegna, borgarstjori, er Reykjavíkurborg ein að fara af stað með rammasamning daginn áður en til stendur að samþykkja samkomulagið fyrir hönd borgarinnar í borgarstjórn? Hvernig getur Reykjavíkurborg, eitt stjórnvald sem stendur að þessum samningi, staðið fyrir gjörningi af þessu tagi?“
Ætlar að kanna innihald rammasamningsins
Dagur var þessu ósammála og sagði framsetningu rammasamningsins ekki brjóta í bága við samkomulagið. Hann þekkti ekki innihald rammasamningsins í smáatriðum en Reykjavíkurborg hafi sinnt umferðarljósastýringu árum saman.
„Ég geri ráð fyrir því að með nýja samkomulaginu muni allir leggja á ráðin um það hvernig er best að haga þessum málum til framtíðar. Hvort og hvernig þessi rammasamningur komi inn í það verður að koma í ljós.“
Vigdís furðaði sig á því að borgarstjóri þekkti ekki rammasamninginn. Umhverfis- og skipulagssvið starfi í umboði borgarstjóra og honum hlyti því að vera kunnugt um innihald hans. Hún furðaði sig á því að farið væri af stað með samninginn áður en að samkomulagið væri samþykkt. Þá velti hún því fyrir sér hvort Vegagerðin vissi af rammasamningi borgarinnar.
„Mér er það til efs, mér er það stórkostlega til efs, og sérstaklega í ljósi svars og undanbragða sem að borgarstjóri beitti hér í fyrra andsvari við spurniingu minni. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.“
Dagur bað Vigdísi að spara stóru orðin og sagðist ætla að afla frekari upplýsinga um rammasamninginn.