Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra bað Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, um stuðning við fríverslunarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna. Í ávarpi Guðlaugs við upphaf fundar Pence með íslenskum viðskiptaforkólfum sagðist hann vilja hámarka viðskipti landanna.
„Það eru mörg tækifæri til þess að styrkja breitt samstarf okkar með auknum viðskiptum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við upphaf fundar með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í dag.
„Það er ekkert leyndarmál að ég mundi vilja kanna möguleika á því að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin,“ sagði Guðlaugur enn fremur. „Ég vona að við getum opnað nýjan kafla í efnahagssamstarfi Bandaríkjanna og Íslands.“