Hún var tunglsjúk og brosmild myrkravera, þekkt fyrir ótrúlegar gáfur og snilli í bæði tón- og textasmíði en fangi þunglyndis og vímuefna. Hana prýddi jafnan bleksvartur túberaður haddur, húðflúraðir handleggir, svartmáluð augnlok og prakkaralegt glott.
„Við kvöddumst aðeins með orðum, ég dó hundrað sinnum,“ kvað hin enska ryþmablússöngkona í lagi sínu Back to Black. Um er að ræða eina af mörgum ódauðlegum ljóðlínum úr lögum tónlistarkonunnar sem hafði einstakt vald á bæði tónum og tungu, en ljóðrænir textar hennar vöktu mikla athygli fyrir trega og dýpt sem hæfði vel þeirri tónlist sem hún skapaði. Lagið er að finna á samnefndri plötu hennar Back To Black en fyrir hana var hún tilefnd til sex Grammy verðlauna og vann fimm þeirra. Þar að auki hlaut hún bresku tónlistarverðlaunin þann 14. febrúar 2007 sem besta breska söngkonan og fyrir bestu bresku breiðskífuna. Hljómsplatan Back to Black var þriðja söluhæsta plata fyrsta áratugs 21. aldarinnar í Bretlandi. Auk þekktra laga söngkonunnar er vert að nefna partýslagarann Rehab, en þar kveður hún eftirminnilega: „Þau reyndu að senda mig í meðferð en ég svaraði: Nei, nei, nei.“
Dánarorsök söngkonunnar var áfengiseitrun en á stuttri ævi sinni glímdi hún við eiturlyfjafíkn, þunglyndi, búlimíu og sjálfsskaða. Yrkisefni hennar voru jafnan þeir djöflar sem hún barðist við og ástarsorg sem hún upplifði reglulega í stormasömu sambandi sínu með Blake Fielder-Civil sem hún hætti og byrjaði með á víxl, en sagðist sjálf tilbúin að deyja fyrir.
Amy Winehouse lést á þessum degi fyrir átta árum, 23. júlí 2011, aðeins 27 ára gömul. Á þeim tíma hafði frægðarsól hennar risið, samhliða því að geð hennar hneig. Hún bættist þar í hóp nokkurra ódauðlegra listamanna sem kvöddu heiminn á því örlagaríka aldursári, 27 ára gömul. Á meðal þeirra eru þau Jimi Hendrix, Janis Joplin, Jim Morrison og Kurt Cobain.
Í heimildamynd um söngkonuna sem heitir einfaldlega Amy er rætt við hennar nánustu aðstandendur um tónlistarkonuna og hvernig þau horfðu á hana hverfa í klær depurðar og fíknar á sama tíma og umboðsmenn og áhorfendur klöppuðu hana upp og görguðu á meira. Æskuvinkonur hennar lýsa því meðal annars á táknrænan hátt hvernig hún fjaraði í burtu frá þeim en kom til baka, rétt áður en hún dó, og tjáði þeim að hún væri loksins tilbúin að segja: „já, já, já,“ snúa blaðinu við og leita sér hjálpar. Hún fékk þó aldrei tækifæri til þess.
Guðdóttir tónlistarkonunnar minnist Amy á hjartnæman hátt á Instagramsíðu sinni í dag þar sem hún segir: Ég sakna þín ávallt, en í dag sem aldrei fyrr. Margir aðdáendur taka undir þetta og minnast þess þegar mikil listakona kvaddi allt of snemma.
Lovísa Rut fjallaði um Amy Winehouse í Popplandi í dag og má hlýða á innslagið efst í fréttinni.