Karl Ágúst Úlfsson leikari og Spaugstofumaður hefur sent frá sér smásagnasafnið Átta sár á samviskunni. Þetta eru átta, mislangar sögur, sem allar fjalla um fólk sem skyndilega finna sig andspænis óvæntum verkefnum sem krefjast úrlausnar.

Karl Ágúst Úlfsson hefur lengi skrifað alls konar texta, mest hafa þetta verið sketsar og styttri leikrænir textar, einnig leikrit og söngleiki. Einnig hefur Karl Ágúst þýtt allmargar bækur skáldsögur, leikrit og fleira.  

Árið 2014 sendi Karl Ágúst frá sér örsagnasafnið Aþena, Ohio: Afkomandi víkinga í landi lágkúrunnar í eigin útgáfu og í gegnum tíðina hefur hann einnig birt eigin smásögur í tímaritum sem af titlunum að dæma gætu hafa verið upphafið að einhverjum sagnanna sem birtast í nýja smásagnasafninu Átta sár á samviskunni

Karl Ágúst segir að þessar sögur hafi orðið til á löngum tíma.  „Margar af þessum sögum eiga það sameiginlegt að ég byrjaði á þeim. Skrifaði kannski hálfa sögu og ýtti henni svo til hliðar. Ýmist út af því að ég komst ekki lengra með hana eða þá að ég þurfti bara að sinna öðru. Í fyrravetur þegar ég var starfandi á Akureyri þá skutu upp kollinum nokkrar hálfgerðar sögur úr skúffunni hjá mér. Þar sem ég hafði nú tíma aflögu þá hugsaði ég að þetta væri nú eitthvað sem ég ætti að sinna, því margt af þessu gæti nú orðið þokkalegt. Þannig að ég fór að prjóna við það sem ég átti til og reyna að koma hlutum á leiðarenda.“

Sögurnar koma úr ýmsum áttum og fjalla gjarna um forskot karlmanna í listum, en listir koma nokkuð við sögu og í einni sögunni er saga úr Gamla testamentinu í forgrunni um leið og sú saga „Abraham og Ísak í Ikea“ fjallar mest um  firringu manneskjunnar í neyslusamfélagi nútímans. 

Sögurnar bera nokkurn keim af sketsahöfundinum Karli Ágústi, þær eru marglaga og fyndnar þótt flestar séu þær líka mjög dramatískar og endirinn kemur iðulega gjörsamlega í opna skjöldu. 

Karl Ágúst segir að það sem honum þyki þó einna áhugaverðast við að skrifa sögur sé heimildavinnan og hann reyni að byggja á staðreyndum en svo leyfi hann sér líka að láta mjög skrítna hluti gerast. Leikhúsið er og nærri í skrifum Karls Ágústs og hann segist í raun leika allar persónurnar um leið og hann skrifi.

Titill bókarinnar Átta sár á samviskunni er margræður og vísar m.a. til þess að flestar persónur bókarinnar leggja af stað til að græða sár á samvisku sinni, losa sig við eitthvað íþyngjandi sem kannski ekki alltaf tekst sem skyldi en einnig höfundurinn, þ.e. Karl Ágúst sjálfur var með þessar sögur og þetta fólk allt saman á samviskunni. Nú hefur hann hins vegar sleppt því lausu til lesenda.