Niðurstöður PISA-könnunarinnar, sem kynntar voru nýlega sýna að lesskilningur grunnskólabarna á Íslandi hefur heldur daprast síðustu ár, valda nokkrum vonbrigðum að því Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor á menntavísindasvið Háskóla Íslands segir. Útkoman komi kannski ekki beinlínis á óvart en þó hefðu menn vænst þess að umræða og verkefni síðustu ára um lestur, lesskilning og læsi hefðu skilað einhverjum árangri.

Það er flókið verk að bæta menntakerfið segir Anna Kristín, ekki áhlaup eða átak heldur langhlaup. Augljóslega hafi þær aðgerðir sem farið var í eftir síðustu PISA-könnun ekki skilað sér í bættum árangri á prófinu nú. 

Leita þurfi inn í skólastofuna

 Í sjálfu sér komi það heldur ekki á óvart. Nokkð lengi hafi menn vitað og það staðfest í alþjóðlegum menntarannsóknum að stór átök sem eiga að ná yfir stóra hópa og farið er í með svolitlum slagkrafti, skili oftar en ekki mjög litlum árangri þegar upp er staðið. Allt þróunarstarf og ákvarðanir um hvað eigi að gera verði að vinna í skólastofunum með þeim sem þar starfa. Þar verði að kanna stöðuna og taka svo skref fyrir skref. 

Ástæðan fyrir því að útkoman er ekki góð getur verið mjög ólík, þannig að aðgerðir sem eru svona smurðar þunnt yfir allt, eru bara mjög ólíklegar til að skila árangri.  

Lesskilningi hefur hrakað í öllum landshlutum frá því árið 2009 en víðast ekki mikið breyst síðustu ár. Nemendum á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra gekk þó marktækt verr í könnuninni í fyrra en fyrir þremur árum. Skýrsluhöfundar setja þann fyrirvara að meiri óvissa sé í mælingum í fámennustu landshlutunum. 

Munur milli skóla á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinnar hefur aukist

Þetta er bara mjög alvarlegt mál, alvarlegt byggðamál segir Anna Kristín og telur að ekki verði við unað. Engin einhlít skýring sé á muninum og málið þaf að skoða betur.

Ég vil samt nefna að síðan ábyrgð á rekstri grunnskólanna var fluttur til sveitarfélaganna árið 1996, það er nú svo langt síðan þá hefur smátt og smátt rekið í sundur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar, hvað varðar stuðning og umgjörð um skólana. Það eru lítil sveitarfélög, það eru litlir skólar og í mörgum tilfellum þá standa þessir skólar einir að sínu. Og aftur þar sem eru fleiri og stærri sveitarfélög þar er hægt að búa til miklu styrkari umgjörð.

Hún segir að það þurfi faglega forystu, eitthvert stuðningskerfi þar sem er þekking á aðstæðum í skólunum , metnaður fyrir starfinu og vilji til að vinna með skólunum. Mörg sveitarfélög hafi leyst þetta með aðkeyptri ráðgjöf en hún geti ekki komið í staðinn fyrir öflugt stuðningskerfi. 

 Menntunarstig og aðkoma foreldra skiptir máli

 Það eru tengsl á milli menntunarstigs foreldra og námsárangurs nemenda segir Anna Kristín það sýna meðal annars nýlegar íslenskar rannsóknir og tengslin birtist bæði í PISA-könnunum, samræmdum prófum og víðar.

Það er ekki bara vegna þess að fólk hefur þessa menntun heldur vegna þess hvað menntaðir foreldrar eru líklegir til að gera í uppeldishlutverkinu. Styðja betur við nám, leggja meiri áherslu á nám og svo framvegis. Mögulega er menntunarstig fólks á ákveðnum svæðum lægra heldur en á höfuðborgarsvæðinu og það gæti haft áhrif.

Höfuðborgin er langt frá því að vera einsleit pg líka eru til nýlegar rannsóknir sem sýna mun þar eftir hverfum og svæðum þó að hann komi ekki fram í PISA vegna þess að þar er hún skilgreind sem eitt svæði. Menntunarstig, efnahagsstaða, félagsleg staða og stéttarstaða allt hefur þetta áhrif segir Anna Kristín og kannski koma þarna fram munur milli þjóðfélagshópa en það þurfi að skoða betur. 

Skóli er flókið samfélag

Við getum ekki bara sagt og búið til einhvern lista þetta er það sem býr til góða menntun eða góðan skóla Það virkar á einum stað svo virkar það ekki á öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að fagfólkið á hverjum stað sé virkt í því að skoða og greina segir Anna Kristín.  Grunnhugsunin sé sú að það hafi allir, hver einn og einasti nemandi og barn í grunnskóla í landinu rétt á að ná framförum og fá gæðamenntun.

Það er eiginlega ekki hægt að viðurkenna neitt annað. og það gerist ekki nema með því að fara inn í stofurnar, skólastofurnar þar sem þetta starf er unnið.