Brúin yfir Tangagötuna er afskaplega forvitin skáldsaga eftir djarfan og frumlegan rithöfund, segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi. „[Eiríkur Örn Norðdahl] hefur alveg einstaklega mögnuð tök á tungumálinu, þessu lykilverkfæri rithöfundarins.“
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Við erum stödd á götu á Ísafirði, götuna er búið að grafa upp endilanga og svona þröng gata má nú eiginlega ekki við því. Íbúarnir og aðrir sem um götuna eiga leið þurfa að klöngrast meðfram mjóum skurðbörðum beggja vegna gjárinnar sem skyndilega hefur myndast, líkt og um sérstaklega nákvæmar og afmarkaðar náttúruhamfarir sé að ræða. En ekki er öll von úti því á þessari götu er brú að finna, brúna yfir Tangagötu.
Þar stöndum við jafnframt andspænis titlinum á nýjustu skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahl, hans sjöundu, sem einmitt nefnist Brúin yfir Tangagötu. Eiríkur gat sér í upphafi ferilsins orð sem eitt af tilraunakenndari ljóðskáldum þess sem einu sinni var „yngri kynslóðin“, ekki var laust við að hann pönkaðist dálítið í hefðinni, jafnvel með tæknina að vopni. En þótt tilraunamennskan sé enn til staðar hefur yfirfærslan yfir í skáldsagnagerð og viðtaka Íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem Eiríkur hlaut árið 2012 fyrir skáldsöguna Illsku, auk eðlilegrar framrásar tímans, fleytt höfundinum í flokk nafnkunnra skálda. Það þýðir þó ekki að Eiríkur ýfi ekki fjaðrir, pönkist ekki enn. Til dæmis kom út árið 2018 eftir hann skáldsagan Hans Blær, sem tókst að valda miklu fjaðrafoki, en var á sama tíma mætt með æpandi þögn – nokkuð afrek það. Hans Blær var mikið ólíkindatól og óvíst svo sem hvenær þjóðin verður tilbúin fyrir hán og hánar sögu. Og þótt það sé forvitnilegt að bera þessa sjöttu bók Eiríks Arnars saman við hina sjöundu, Brúna fyrir Tangagötuna, eru þær vægast sagt afar ólíkar. En samanburðurinn er engu að síður upplýsandi og þá einmitt vegna þess hversu ólíkar þær eru.
Áður en að slíkum samanburði kemur er hins vegar rétt að líta við aftur á Tangagötunni, því þar og öðru megin við mótatimbrið sem myndar áðurnefnda „brú“ er rautt hús að finna og inn í því, sitjandi við eldhúsgluggann sem vísar út að götunni og skurðinum, situr söguhetja okkar, Halldór, og snæðir morgunverðinn sinn í rólegheitunum. Lesendum íslenskra bókmennta hefur reyndar oftast verið boðið upp á sprækari söguhetjur, helsta einkenni Halldórs er að hann er hálfgerð mannleysa. Ástæðan fyrir því að hann situr svona rólegur yfir morgunverðinum sínum er t.d. sú að þeim sem vinna í rækjunni hefur verið gefið ótímabundið leyfi úr verksmiðjunni meðan beðið er eftir meiri rækju, og hann er í þeim hópi. Og dögunum ver hann eiginlega í ekki neitt, allavega ekki neitt sérstakt, væflast um og veltir fyrir sér hvort hann ætti kannski að mála húsið sitt. Ekki er vanþörf á en hann nennir því ómögulega. Konan sem býr í húsinu á móti lét mála húsið sitt árinu fyrr og það er vissulega hugmynd, fá bara menn í það. En það er samt eiginlega ekki hægt. Að fá menn til að mála húsið sitt, meðan hann sjálfur situr bara inni gerandi ekki neitt, hvað myndi fólk segja? Þannig að ofan á dugleysið bætist við smásálarháttur, of miklar áhyggjur af því sem fólk kann að hugsa og halda.
En ég hljóp eiginlega framhjá aðalatriðinu: Konunni sem býr á móti, hinum megin við brúna bókstaflega, henni Gyðu. Hægt og rólega hefur Halldór þróað með sér rómantískar tilfinningar í garð þessarar nágrannakonu sinnar, tilfinningar sem hún er alfarið ómeðvituð um, enda hafa þau varla skipst á orðum, hvað þá Halldór hafi gert tilraun til að kynnast henni betur. Á milli þeirra er með öðrum orðum gjá, bæði í eiginlegri merkingu orðsins og svo yfirfærðri, en svo vill til að bærinn lagði brú yfir eiginlegu gjánna og hlóð þannig óaðvitandi ennfrekar undir táknrænu víddina. En gjáin er jafnvel enn táknrænni en sem nemur tilfinningalegu fjarlægðinni milli Halldórs og Gyðu, milli Halldórs og heimsins liggur líka gjá, hann kýs að taka lítinn þátt í lífinu, væri jafnvel til í að vera dauður hlutur, dreymir stundum um að vera fjall frekar en maður, eitthvað sem horfir á lífsins atburði úr fjarlægð og án þess að eiga hlutdeild í þeim. En svo kemur Gyða til sögunnar, og spurningin sem hvílir á brúnni er hvort þar sé um nægilega aflmikið samgöngutæki að ræða til að Halldór gefi einstæðingsháttinn upp á bátinn, og kjósi samveru umfram einveru.
Þessari spurningu er ekki svarað nærri því strax, enda þótt „ástarsögu“-undirtitill bókarinnar og almennur tónn frásagnarinnar aftri útkomunni frá því að verða beinlínis að meiriháttar ráðgátu. En frásögnin dregur úrlausnina samt býsna hressilega á langinn, og á meðan fær lesandinn dýpri og nákvæmari innsýn í líf Halldórs, í öllu sínu upphafna tilbreytingarleysi og epíska litleysi og tómleika. Hann röltir um bæinn og höfundur notar tækifærið til að draga upp afar nákvæma og lifandi mynd af Ísafirði. Á einum stað slæst Halldór meira að segja í för með ferðamönnum í skipulagðri túristagöngu með leiðsögumanni, sem er dálítið skemmtilegur húmor. Sama er að segja um atvikið þegar Halldór rekst á bæjarskáldið, Eirík Örn Norðdahl, sem er alltaf með þennan bévítans hatt. Einu sinni, fyrir langa löngu, var það að höfundur skrifaði sig inn í bókina sína hápunktur póstmódernískrar tilraunamennsku, núna er það meira kamp, en getur verið skondið, eins og í þessu tilviki.
Ég hef talað um litleysi og dugleysi í samhengi við aðalsöguhetjuna, Halldór. Er ég þar þó bara rétt byrjaður að beita fyrir mig lýsingarorðakostinum sem í boði er. Halldór á sér varla áhugamál og segir einu sinni að það eina sem maður græði á að reyna að skilja hlutina sé betra aðgengi að verri rifrildum. Á öðrum stað verður hann hugsi yfir sjálfsræktarorðræðu samtímans, og leggur eftirfarandi mat á fyrirbærið: „Þeir sem segja að maður eigi stöðugt að „vaxa“ í lífinu hafa aldrei átt í neinum erfiðleikum með sitt sálarlíf. Mörg okkar berjast daglega við að skreppa ekki saman og þykjumst góð að standa í stað.“ En þá snýst spurningin kannski um hvaða staður það er sem maður leitast við að viðhalda, og Halldór er ekki á góðum stað. Dauðyfli, það er hann án nokkurs vafa, sem og iðjuleysingi, hann er líka metnaðarlaus og alvondur í samskiptum, sem hann hvort sem er forðast. En það er samt alltaf mesta furða hvað lesendur geta samsamað sig gölluðu fólki, hvað skapgerðarbrestir geta verið forvitnilegir. Syndin sem í þessu tilviki er erfiðast að fyrirgefa, og þá vegna þess að hér er um ástarsögu að ræða, er hversu óframfærinn hann er, hversu óhemjulega getulaus Halldór er í ástamálum, hvað jafnvel minnsta hænuskref er honum ofviða, hvað þá þessi tæplega tíu skref sem tekur að fara yfir brúna til Gyðu.
Að fylgjast með þessari veraldlegu og andlegu lömun aðalsöguhetjunnar reynir stundum allverulega á taugar lesanda. Og þá komum við að samanburðinum við Hans Blæ, en titilpersóna þeirrar bókar gæti ekki verið ólíkari söguhetju vorri. Málningakrísan sem minnst var á hér að ofan myndi aldrei staldra við lengur en sekúndubrot í vitund þeirrar sögupersónu: hvaða asnalegu dóma fellið þig um mig meðan ég sit inni og horfi á Netflix og húsið mitt er málað! Myndi hán hrópa ögrandi. Hugsið ekki um það, hérna eru hundrað aðrar miklu svakafengnari ástæður til að níða mig, tortryggja og fyrirlíta. Þannig hefði hán brugðist við – ímynda ég mér. En þrátt fyrir þennan djúpstæða eðlismun á aðalpersónunum skrifar Eiríkur Örn hér aðra bók sína í röð um afskaplega ósympatíska aðalpersónu. En það er einhvern veginn allt öðruvísi þegar ósympatíska persónan er gagnkynhneigður verkamaður á landsbyggðinni en kynuslakynstrið Hans Blær, slíkt er ekki að fara að strjúka neinum öfugt. Hættan á því er í öllu falli miklum mun minni.
Það er ekki bara að Halldór sé svo normatífur að hægt hefði verið að skrifa minningagreinina um hann fertugan, með ennþá þrjá eða fjóra áratugi ólifaða, og hitta nokkur veginn naglann á höfuðið – nokkuð sem endakaflinn dregur fram með bíræfnum hætti – heldur það að þrátt fyrir grenjandi meðalmennsku er hann samt ferlega stuðandi. En ég held samt að það eigi ekki endilega eftir að trufla fólk, allavega ekki jafn mikið og Hans Blær gerði, einfaldlega vegna þess að sumar persónugerðir hafa svigrúm til og mega vera meira stuðandi en aðrar, og er þar gagnkynhneigði hvíti karlinn sönnunargagn númer 1. Ef við krefjumst þess að Hans Blær axli ábyrgðina á að vera táknmynd og menningarlegur erindreki minnihlutahóps, fánaberinn til okkar hinna, þá verða frávik hans frá siðferðilegum viðmiðum og sæmdarlegri hegðun syndsamleg á forsendum utan skáldskaparins, truflandi af ástæðum sem tengjast skáldverkinu ekki neitt. Slík örlög eru ólíkleg til að henda Halldór, söguhetju nýju skáldsögunnar, og það kæmi mér í öllu falli ekki á óvart ef Eiríkur Örn væri að gera örlitla tilraun um einmitt þetta í nýju skáldsögunni sinni.
Ein af kennisetningum sálgreiningarinnar er að leikur barna varpi gjarnan ljósi á dulvituð ferli í vitund þeirra. Í samhengi við þetta beini ég lesendum að fyrstu köflum bókarinnar og leik Halldórs að grautnum sem hann snæðir í morgunverð, hvernig mörg átakaefni sögunnar eru dregin fram þarna í grautarskálinni og aðferðum Halldórs við grautarátið. Í þessum lýsingum er á ferðinni sýnidæmi um listilegan skáldskap og áður en ég segi skilið við þessa afskaplega forvitnilegu skáldsögu vildi ég nefnilega taka fram að Eiríkur Örn, til viðbótar við að vera djarfur og frumlegur höfundur, hefur alveg einstaklega mögnuð tök á tungumálinu, þessu lykilverkfæri rithöfundarins. Það er ekki endilega alltaf sem maður staldrar við málsgreinar og efnisgreinar og nýtur þess hvernig þær eru settar saman og hvernig útkoman getur bókstaflega verið gómsæt þegar þær flæða og verða að umfangsmeiri heild. En þannig er það hjá Eiríki Erni.