Þorskkvótinn eykst lítillega en ýsukvótinn minnkar um nærri þriðjung samkvæmt veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Fiskifræðingur segir ástand síldarinnar alvarlegt. Hann segir líka að ef loðnustofninn minnki verulega geti það haft alvarleg áhrif á bolfiskstofnana.

Það skiptir enn máli að draga bein úr sjó. Á síðasta ári stunduðu 1600 íslensk skip og bátar veiðar og lönduðu samtals 1,2 milljónum tonna sem var 75 þúsund tonnum meira en árið áður. Af þessum afla nam uppsjávarfiskur, loðna, síld, kolmunni og makríll um 738 þúsund tonnum. Botnfiskaflinn jókst um 56 þúsund tonn frá 2017. 

Í dag var veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kynnt. Hennar er yfirleitt beðið með eftirvæntingu. Veiðiráðgjöfin er í raun tilkynning um leyfilegan afla á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september og ráðgjöf sem stjórnvöld fara eftir í einu og öllu. Guðmundur Þórðarson, sviðstjóri botnsjávarlífríkissviðs, segir að það séu litlar breytingar í langflestum tilfellum. Heilt yfir sé þetta þó heldur niður á við.

Þorskurinn upp en ýsan niður

Í dag var veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kynnt. Hennar er yfirleitt beðið með eftirvæntingu. Veiðiráðgjöfin er í raun tilkynning um leyfilegan afla á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september og ráðgjöf sem stjórnvöld fara eftir í einu og öllu. Guðmundur Þórðarson, sviðstjóri botnsjávarlífríkissviðs, segir að það séu litlar breytingar í langflestum tilfellum. Heilt yfir sé þetta þó heldur niður á við.

Lagt er til að þorskkvótinn verði 272.411 tonn sem er þriggja prósenta aukning. Hrygningarstofninn hefur ekki verið stærri í 60 ár. Fyrir 1985 voru oft mjög stórir árgangar sem komu að hluta til frá Grænlandi en samt sem áður var nýliðun betri að jafnaði. Guðmundur segir að nýliðun hafi batnað á síðustu árum en samt sem áður sé beðið eftir stóra árganginum.

„Það hefur verið sígandi lukkan í nýliðun. Nú erum við með tvo árganga sem eru mjög nálægt þessu langtímameðaltali. Það er rétt að hrygningarstofninn er núna stór í sögulegu samhengi eða svipaður og hann var í kringum 1960 en við sjáum ekki þessa stóru árganga sem við sáum þá," segir Guðmundur. 

Lagt er til að ýsukvótinn dragist saman um 28%. Kvótinn hljóðar nú upp á tæp 42 þúsund tonn en var tæp 58 þúsund tonn. Það kemur til af því að aflareglan var endurskoðuð í þeim tilgangi að veiðarnar verði sjálfbærar. 

Slæm ráðgjöf

En hver eru viðbrögð útgerðarmanna við ráðgjöf Hafró? Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna er ekki sáttur.

„Hún er slæm að mínu mati. Það er fylgt öllum tölum og þvíumlíkt en það er aðeins bætt við tvær tegundir, þorsk og ufsa en allar aðrar tegundir fara niður. Það hlýtur að vera slæmt. Tækifærin sem ég sé í þessu felast í þorskinum. Ég myndi ráðleggja stjórnvöldum að skoða það mjög vel að bæta við þorskinn þeim afla sem hefur ekki náðst upp að aflareglu á undanförnum árum. Ég tel að það sé ekki verið að brjóta aflaregluna með því og myndi hvetja þau til að skoða það mjög vel," segir Örn.

Jákvæð viðbrögð

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er jákvæðari.

„Heilt yfir eru viðbrögðin jákvæð og við sjáum sér í lagi með þorskinn að það er lítil en stöðug auking sem er að ég tel staðfestingu á því að við erum að gera rétt," segir Heiðrún. Hún segir að vissulega fari nokkrar tegundir niður á við eins og til dæmis ýsan en það hafi þó verið töluvert stökk á kvótanum í fyrra sem hafi þá komið mörgum á óvart. Það sé verið að breyta aflareglunni en í raun séu ekki breyttar horfur í stofninum. Stæstu áhyggjurnar sé staðan á síldinni. Aðrar tegundir séu líka áhyggjuefni vegna lítillar nýliðunar. Það eigi við um skötusel, gullkarfa, djúpkarfa, blálöngu og fjölda tegunda. „Það sem er alvarlegast í því er að við höfum engar skýringar. Hvers vegna? Jú, kannski vegna þess að við erum ekki að stunda hafrannsóknir eins vel og við þyrftum."

Alvarleg staða síldar og loðnu

Það blæs ekki byrlega hvorki með síldina né loðnuna. Of snemmt er að spá um loðnuna en síldarkvótinn dregst saman um 2% og var ekki mikill í fyrra. Lagt er til að hann verði rösk 24 þúsund tonn. Guðmundur segir að saga síldarinnar hafi verið sorgleg á undanförnum árum.

„Þannig að hún dansar þarna rétt við varúðarmörkin og ástandið á stofninum er alvarlegt. Við sjáum ekki að það sé að skána þó að það séu örlitlar vísbendingar um árganginn 2017, að hann gæti verið góður en það er of snemmt að segja til um það," segir Guðmundur.

Fiskifræðingar fara varlega í að spá hver áhrif hlýnunar sjávar geti orðið á fiskistofnana. Hins vegar er ljóst að koma makríls hingað tengist henni. Ýsan heldur sig nú að mestu fyrir norðan land en var áður suður af landinu og loðnan er byrjuð að einhverju leyti að hrygna fyrir norðan. Þorskurinn hefur hins vegar ekki breytt hegðun sinni. 

„Það sem maður hefur helstu áhyggjur af er loðnan, að hún minnki verulega. Loðnan er í raun að færa orku inn í íslenska vistkerfið. Hún er mjög mikilvæg fyrir marga bolfiska eins og til dæmis þorsk, ýsu og ufsa. Ef að hún færi væri bara skellur fyrir byggðalög sem reiða sig á loðnuveiðar heldur líka fyrir allt vistkerfið og þar með okkar helstu bolfiskstofna," segir Guðmundur.