Tæplega ársseinkun er á endurbyggingu sögufrægs húss við Hafnarstræti í Reykjavík. Fornleifauppgröftur og breytingar á teikningu eru ástæður seinkunarinnar. Ekki er unnt að nýta nema tíu til tuttugu prósent af byggingarefni gamla hússins.
Gamalt fiskverkunarhús við Hafnarstræti 18 í Reykjavík á sér langa sögu. Elsti hluti hússins er frá 1795. Húsið var fiskverkunarhús í Keflavík en var flutt til Reykjavíkur og varð þar verslunarhús. Húsið hefur nú verið tekið niður.
„Ástandið var mjög bágborið. Það var búið að fikta svo mikið í húsinu og breyta því og breyta útlitinu og innviði, að það stóð varla steinn yfir steini. Eða timburverkið, það var allt út og suður,“ segir Páll V. Bjarnason arkitekt sem hefur ásamt dóttur sinni Ólöfu Pálsdóttur teiknað nýja húsið.
Allt sem var nýtilegt úr gamla húsinu hefur verið tekið niður og sett í geymslu. Það er aðeins byrjað að steypa grunninn en gert er ráð fyrir að húsið byrji að rísa eftir áramótin.
Þetta sögufræga hús hefur síðustu árin hýst skyndibitastaði.
„Það verður nútímavætt. Það verður sett lyfta í húsið og það verður í rauninni endurbyggt samkvæmt byggingareglugerð í dag,“ segir Páll.
Skúli Gunnar Sigfússon sem er kenndur við Subway stendur að endurbyggingu hússins í samráði við Minjastofnun.
„Upphaflega ætluðum við bara að lyfta húsinu og byggja undir það en því miður var það í svo slæmu ástandi að við fengum samþykki fyrir því að taka það niður,“ segir Páll.
Viðir úr elstu hlutum hússins verða nýttir í nýja húsið.
„Eða hluti af þeim. Það er varla nema 10-20% af öllu húsinu,“ segir Páll.
Húsinu verður lyft upp um níutíu sentimetra. Með þessu fást þrjár hæðir og rúmir þúsund fermetrar. Verslanir verða í kjallara og jarðhæð en skrifstofur í risi. Nú er gert ráð fyrir að húsið verði tilbúið í sumar, tæpu ári á eftir áætlun.
„Í fyrsta lagi þurfti að fara fram fornleifarannsókn hér sem tók margar vikur síðasta vetur,“ segir Páll.
Þá var ákveðið að breyta teikningu.
„Það þýddi það að erindið þurfti að fara allt aftur inn í gegnum byggingafulltrúaembættið og það er það sem hefur tafið hingað til,“ segir Páll.