Langur biðlisti er eftir að komast í meðferð hjá offituteymi Reykjalundar og er biðtíminn nú eitt ár. Hildur Thors, sérfræðingur í heimilislækningum og læknir offituteymis Reykjalundar, segir að 60% íslensku þjóðarinnar séu of þung. Offita, vannæring og loftslagsvá séu þrír faraldrar sem mannkyn stríðir við núna og þeir eiga allir upptök sín í því sama.

150 komast að árlega

Hildur Thors, skrifaði leiðara í Læknablaðið síðast sem ber nafnið Að lifa í breyttum heimi þar fjallaði hún um lífsstílssjúkdóma og loftslagsbreytingar og vitnaði meðal annars í greinar í hinu virta vísindatímariti Lancet. Þar er einmitt fjallað um faraldrana þrjá sem núna eru í gangi. Rætt er við Hildi í Mannlega þættinum á Rás eitt. 

Hildur er eini læknirinn í offituteymi Reykjalunds og hún segir að aðsóknin sé mjög mikil.
„Og því miður er það meiri aðsókn en við náum að anna, þannig að það er orðinn svolítið langur biðtími hjá okkur. Við höfum í raun og veru ekki möguleika á að hitta mikið fleiri en svona 150 manns á ári og vinna með þeim.“ Hvað er biðlistinn langur, hvað er biðtíminn langur? „Hann er orðinn svona um það bil ár.“

Teymið á Reykjalundi er þverfaglegt og reynt er að forgangsraða þeim sem eru á biðlistanum. Þeir sem eru veikastir og þurfa mestu hjálpina eru í forgangi. Hildur segir að þjóðfélagið hafi breyst mjög mikið á síðustu áratugum, hraðinn sé meiri, meiri streita og fólk sofi minna. 

Ekki eru til nýjar tölur yfir hve margir stríði við offitu og ofþyngd á Íslandi. Þær eru síðan 2012 og samkvæmt þeim er 20 prósent þjóðarinnar offeit og fólk sem glímir við offitu og þau sem glíma við ofþyngd eru samanlagt um það bil 60% þjóðarinnar. 

Vestrænn lífstíll veldur loftslagsbreytingum og offitu

Hildur hefur tengt umræðuna um offitu við loftslagsbreytingar. „Við sjáum að hvort tveggja er að gerast á síðustu fjórum áratugum og við sjáum líka að þessi vestræni lífsmáti er mengandi. Við getum svolítið séð þetta þegar við fylgjumst með fátækari þjóðum efnast og þær taka upp þennan vestrænan lífsmáta og það verða svona stærri borgir.“
 
„Stærri borgir þýðir að fólk keyrir meira, það þýðir bíllinn mengar, fólk hreyfir sig minna, það þýðir líka oft á tíðum að mataræðið breytist. Vestrænt matarræði er mikið unnið, það er mikið kjöt. Kjötframleiðsla er mengandi, dýrin sem gefa okkur rauða kjötið það eru jórtúrdýrin sem menga með meltingarvegi sínum.“

Með vestrænum lífsmáta breytist landnýting til að hægt sé að rækta sojabaunir til að fóðra dýrin. Það þarf geysilega mikla orku fyrir dýrin til að framleiða bara lítið kjöt. 

„Þannig spillum við náttúrunni og svo er því miður matvælavinnslan. Við erum farin að borða meira og meira unna vöru sem þýðir verksmiðjur, sem þýðir jafnvel flutning á matvælum heimshluta á milli og þá kemur mengun líka. Þessi vestræni lífsmáti virðist ýta undir það að fók þrói með sér offitu. Þannig að þetta er mjög tengt og svo hefur þetta jafnvel líka verið tengt við vannæringu af því oft er þessi fæða sem er búin að fara í gegnum þessa miklu vinnslu orðin næringasnauðari. Þannig að þetta er orðið mjög stórt vandamál.“

Offeitir geta líka verið vannærðir

„Er eitthvað um það að fólk hér á Íslandi sé vannært vegna þessa? „Við sjáum mikið um skort á D-vítamíni og B12-vítamíni þannig að við sjáum alveg að þó að fólk sé í góðum holdum þá er það ekki endilega vel nært. Þannig að þetta hangir ekki saman.“
 
Þeir sem koma hingað til ykkar til að fá aðstoð vegna offitu, er hægt að segja að þeir séu vannærðir á einhvern hátt líka? Sumir hverjir eru það vegna þess að þeir borða mjög einhæfa fæðu. Þeir borða ekki úr öllum fæðuflokkum og það þýðir vannæring.“ 

Hildur segir að þetta hangi saman, það sem veldur loftslagsbreytingum er það sama og veldur offitu og vannæringu. 

„Það segir okkur náttúrlega líka að þegar við ætlum að hugsa um lausnirnar að þá er kannski ekki nóg að hugsa bara um hvernig við minnkum mengunina ef við gerum það á þann máta að það verður til þess að fólk verður óheilbrigðara. Þetta er orðið svo mikið samspil að lausninnar þurfa líka að líta á heildarmyndina, ekki bara einhvern einn þátt út af fyrir sig.“  

Stjórnvöld verða að koma að lausninni

Lausnin er flókin, segir Hildur. Alþjóðastofnanir hafa sett fram ýmis falleg markmið og tillögur.  

„En það eru stjórnvöld sem þurfa að koma til sögunnar og vera virkari og móta stefnuna samkvæmt þessum tillögum en auðvitað eru allaf einhverjir hagsmunir sem koma þar inn í líka. Ég á enga töfraalusn við þessu frekar en öðru en þetta þarf að taka til flestara þátta samfélagsins held ég.“

Greinarnar í Lancet voru birtar í byrjun árs og leiðari sem hún skrifaði birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins. Að öðru leyti hefur þessi nálgun þar sem talað er um að aðgerðir gegn lofslagsvá, offitu og vannæringu séu í raun þær sömu ekki verið mikið til umræðu.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara að tala um. Það er ekki nóg að við, eitthvert fagfólk út í bæ, tölum um þetta, heldur þarf þetta að ná til stjórnvalda.“ Og þá getur maður spurt: Á þetta að koma inn í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eða hvar á þetta að passa? „Þetta verður að koma inn alstaðar það er ekki nóg að þetta kom á einum stað heldur verðum við að hugsa bæði um heilsu jarðarinnar og heislu mannsins og finna aðgerðir sem eru báðum í hag.“

Heimsfaraldrarnir þrír

Erum við að tala um faraldur eða jafnvel heimsfaraldur?  „Já, í Lancet greininni vilja þeir tala um það og þar tengja þeir saman faraldur offitu, faraldur loftslagsbreytinga og faraldur vannæringar.“ 

Hildur bendir á að ef styrkleiki gróðurhúsalofttegunda verður of mikill megi búast við að næringarefnin í hveiti og karföflum breytist og snefilefni í þeim minnka. Maturinn verði því ekki af sömu gæðum.

Ef á að vera hægt í framtíðinni að fæða alla þurfi að endurhugsa málið. „Það þarf að breyta matnum. Það þarf að breyta því sem við borðum. Við getum ekki leyft okkur lengur að borða svona mikið rautt kjöt. Við verðum að fara að nota plönturíkið betur. Ég er ekki að segja að það sé bannað að borða rautt kjöt en við þurfum kannski að hugsa um að minnka það. Og þá þurfum við að hugsa um hvað ætlum við að borða í staðinn og læra að nýta það.“