Arnarskóli er ungur og fámennur en vaxandi skóli í Kópavogi. Nemendurnir eru 17 og hafa með sér einn leiðbeinanda að aðstoða við námið allan daginn. Verkefnin eru afar fjölbreytt og fara eftir því hvar hver er staddur í sínu námi, enda er Arnarskóli fyrir börn með einhverfu og önnur þroskafrávik.
Sumir læra ensku, aðrir að nota salernið
„Þau geta verið mjög misjafnlega stödd í náminu, “ segir Atli Magnússon, framkvæmdastjóri skólans og einn stofnenda hans. „Sum eru að læra að lesa og skrifa og læra samfélagsfræði og ensku og fleiri hefðbundin skólafög á meðan önnur eru komin skemmra á veg og læra hjá okkur grunntjáningu, að geta beðið um hluti, að læra að nota salerni og svoleiðis. Þannig að það er mjög mismunandi hvað við erum að vinna með, með hverjum og einum nemanda.“
Fjórar kennslustofur eru í skólanum og í hverri stofu eru fjórir til fimm nemendur með gott rými fyrir sig, við sitt skrifborð og með skilrúm. „Það er mjög mikilvægt að við getum haft það þannig að það sé sem minnst truflun, þannig að nemendurnir fái gott næði til að læra,“ segir Atli. Nemendurnir leika sér ýmist í skólastofunni sinni á milli kennsluæfinga eða fara fram á opið svæði.
„Við fléttum saman frístundastarfi og skólastarfi og það getur verið mjög mismunandi eftir nemendum og úthaldi þeirra,“ bendir Atli á. „Sumir hafa stutt úthaldi í námi og sitja ekki við í 40 mínútur heldur læra í kannski 10-15 mínútur og svo tökum við pásur. Svo læra þeir í aðrar 10-15 mínútur, þannig að dagurinn gengur þannig að við fléttum saman skóla og frístund. Aðrir nemendur læra mjög mikið fyrri partinn og taka sér svo hefðbundnari frístund eftir hádegi.“
Stoðþjónustan verður í skólanum
Börn með þroskafrávik þurfa gjarnan alls kyns þjónustu. Talmeinafræðingur kemur í skólann og sjúkraþjálfarar gera það stundum. Nú er verið að útbúa sérstaka aðstöðu fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun við skólann.
„Við sjáum fyrir okkur að það verði talmeinafræðingur, sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi á staðnum, þannig að öll þjónusta sé hér. Við erum ekki komin alveg á þann stað ennþá en við erum þessa dagana með söfnun í gangi,“ segir Atli. Það sé fyrst og fremst hugsað til að brjóta ekki upp starfið með nemendunum. „Þessi hópur sem við erum að vinna með eru nemendur sem fá þjónustu mjög víða og oft á tíðum er þetta hópur sem þolir svona uppbrot mjög illa. Okkar hugsun er fyrst og fremst að það sé samfella í deginum, það sé ekki verið að brjóta upp daginn og fara út í stoðþjónustu og koma svo aftur í skólann.“
Löng frí geta verið erfið
Það er starfsemi í skólanum alla virka daga á ári. „Við tökum ekki jólarfí, páskafrí eða sumarfrí, við erum alltaf með opið,“ segir Atli. „Það er svo foreldranna að ákveða hversu mikið sumarfrí nemendurnir taka eða hvort þeir taka sumarfrí, því að sumir okkar nemenda hafa litla færni til að hafa ofan af fyrir sjálfum sér og þurfa stuðning í því og þessi löngu frí reynast þeim erfið.“