Nú geta íslenskir notendur IOS stýrikerfis Apple síma loksins nýtt símtækið sem greiðslumáta eins og Android notendur hafa lengi getað. Apple Pay er svipuð lausn og snertilaus debet- eða kredit-kort og eykur þægindi fólks við greiðslur á netinu.

„Helstu ástæður Apple til þess að koma inn á greiðslumarkaðinn eru að festa fólk enn frekar sem viðskiptavini sína,“ sagði Björn Berg Gunnarsson hjá Íslandsbanka í spjalli við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Þetta þýðir að viðskiptavinir bankana sem nota Apple síma geta nú þegar borgað með því að leggja símann sinn á posann þar að segja ef að viðskiptabanki þeirra býður upp á þjónustuna.

„Enn sem komið er á þetta bara við Visa-kort en það er ekki langt í að þetta verði mögulegt með Mastercard.“ Apple eru ekki þeir einu sem hugsa sér gott til glóðarinnar þegar kemur að aðgengi að bankareikningum viðskiptavina sinna og færslugjöldum. „Google er með bæði Android Pay og Google Pay, Facebook hefur farið aðrar leiðir og er fyrst og fremst í tvennu. Annars vegar með sína eigin mynt í líki rafeyris og hins vegar að notendur geti gefið yfirlit um sig og fjármálaupplýsingar í gegnum Facebook,“ sagði Björn og bætti við, „síðan er planið að þú getir líka farið að millifæra peninga í gegnum Facebook, en þetta tekur allt sinn tíma og við Íslendingar erum oft á eftir Bandaríkjunum með svona".

Það eru miklar sviptingar í þessum greiðslumiðlunarmálum þessa dagana og þróunin er mjög hröð. „Þetta er nú ekkert að gerast í einum hvelli. Fólk er ekkert hætt að nota kortin sín en þetta er samt að gerast mjög hratt,“ sagði Björn Berg Gunnarsson hjá Íslandsbanka í spjalli við Síðdegisútvarpið. Hægt er að hlusta á allt spjallið í spilara hér að ofan.