„Ég sæki innblástur í Stonewall-uppþotin því þar er hópur sem tekur sig út úr stóru samfélagsjöfnunni og segir „Hér erum við“. Við ætlum að skilgreina okkur sjálf og afmarka okkur pláss í samfélaginu,“ segir Ynda Gestsson sýningarstjóri Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ´78 sem stendur yfir í Grófarhúsi í sumar og varpar ljósi á kima myndlistar, sem hefur lítið verið sýnilegur.
Sýningin Út fyrir sviga er samstarfsverkefni Yndu Gestsson listfræðings og Borgarskjalasafns Reykjavíkur með þátttöku Borgarbókasafnsins og Samtakanna´78 en þar má sjá hvernig hinsegin listafólk takast á við mannréttindabaráttuna, sjálfsmynd sína og sögu með myndlist að vopni. Á sýningunni eru fjölmörg listaverk frá ýmsum tímum. Listaverkin segja sögur og þeim fylgja yfirlýsingar listafólksins. Athygli vekur að mörg þeirra tala um myndlistina sem griðarstað sinn frekar en baráttutól.
„Í upphafi var þetta í felum og fréttir af myndlist hinsegin fólks bárust lítið út í samfélagið. Listin týnist og verður ósýnileg,“ segir Ynda alvarleg. „Það var ekki fyrr en á tíunda áratugnum að fjölmiðlar opnuðust aðeins.“
Hinsegin list ritskoðuð
Ynda rifjar upp þegar tveir samkynhneigðir norskir listamenn, Kjetil Berge og Göran Ohldieck hugðust setja upp sýningu í Norræna húsinu árið 1983 en ákváðu að pakka saman eftir að hafa sætt ritskoðun. Listamennirnir voru búnir að hengja upp sýninguna sína en þegar í ljós kom að þeir voru með 100 mynda seríu þar sem fjallað var um kynusla af ýmsu tagi var þeim gert að taka þann hluta sýningarinnar niður.
„Það var sagt við þá hreint út að þeir fengju ekki að sýna þessi verk.“ Þar sem þeir stóðu frammi fyrir því að vera gert að fella ákveðin verk úr sýningunni ákváðu þeir að sýna ekki eitt einasta verk. „Norska pressan logaði,“ segir hún. „Norðmenn náðu ekki upp í nefið á sér yfir þessum forpokuðu Íslendingum. Á Íslandi var þessu sópað undir teppið og sagt að þeir hafi einfaldlega ákveðið að fara. Mér finnst þetta gott dæmi um stofnanabundna hómófóbíu á þessum tíma.“
Á sýningunni í Grófarhúsi má sjá nokkrar af þessum bönnuðu myndum en þær þykja í dag fremur sakleysislegar. „Myndirnar sýna ungt fólk að leika sér með kyngervi. Þau eru í fötum og allt,“ segir Ynda og hlær.
Listasaga sem skiptir máli
Ynda er listrænn stjórnandi Gallerís 78 í húsnæði Samtakanna '78 og segir enn erfitt að fá umfjöllun um myndlist hinsegin fólks. „Við höfum ekki fengið margar fréttatilkynningar birtar um sýningarnar sem settar eru upp. Í rauninni finnst mér þó samfélagið sé opnara að það sé áhugaleysi um hinsegin myndlist. Það er þarna listasaga sem skiptir máli og hefur ekki verið sögð.“ Ynda segir hugmyndir fólks um hinsegin list oft bundin við kynlíf frekar en að það sé pólitísk barátta. „Í Bandaríkjunum var það ekki fyrr en með alnæmisfaraldrinum að myndlistarfólk fór að tjá sorg sína og takast á við erfiðleikana með myndlist. Það hefur farið vaxandi.“
„Hér erum við“
Að mati Yndu er bæði spennandi og þarft verkefni að koma umræðunni um þessa földu list í gang. „Það er búið að valta yfir stóran hluta listafólks með heterónormatívum samfélagsaðferðum,“ segir Ynda. „Það er athyglisvert að skoða Bandaríkin þar sem hatur í garð hinsegin fólks virðist fara vaxandi, þar er líka krafturinn í hinsegin myndlist rosalega mikill. Það er safn í New York sem einbeitir sér sérstaklega af því að sýna og kynna myndlist eftir hinsegin listafólk og svoleiðis starfsemi skiptir miklu máli.“
„Þetta er ekki gert í tómarúmi. Ég sæki innblástur í Stonewall-uppþotin því þar er hópur sem tekur sig út úr stóru samfélagsjöfnunni og segir „Hér erum við“. Við ætlum að skilgreina okkur sjálf og afmarka pláss í samfélaginu. Sama má segja þegar Samtökin '78 eru stofnuð þá er hópur, hópar eru alltaf
að taka sig út fyrir sviga til að verða sýnilegir. Ég er að halda áfram með það verkefni og núna er það myndlistin,“ segir Ynda að lokum. Þetta er sannarlega viðeigandi því í dag, 28.júní eru akkúrat 50 ár liðin frá Stonewall uppþotunum.
Rætt var við Yndu í Víðsjá en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.