Samræma þarf skráningu á skólasókn í grunnskólum til að vinna bug á skólaforðun. Talið er að minnst þúsund börn hér á landi sæki ekki skóla vegna ýmissa sálrænna og félagslegra vandamála. Þetta kom fram á málþingi um skólasókn og skólaforðun í morgun.
Umræða um skólaforðun hefur aukist nokkuð síðan Velferðarvaktin gerði könnun á umfangi hennar. Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri stóðu að málþinginu í morgun. Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, segir að skólaforðun sé ekki nýtt vandamál. „Skólaforðun almennt hefur farið vaxandi, ekki bara á Íslandi, heldur líka hjá nágrannaþjóðum og fleiri þjóðum og felst í því að börn og ungmenni forðast að fara í skólann af ýmsum ástæðum,“ sagði Siv í viðtali við Stíg Helgason, fréttamann, í hádegisfréttum.
Segir brýnt að minnka hraðann í samfélaginu
Samkvæmt könnunum Velferðarvaktarinnar eru um þúsund börn sem glíma við skólaforðun hér á landi. „Þær ástæður sem skólastjórarnir nefna eru að mestu leyti andleg vanlíðan, það er að segja kvíði og þunglyndi.“ Þá eru erfiðar heimilisaðstæður einnig ein af algengustu ástæðunum. „Þannig að það er mjög brýnt núna að yfirvöld, bæði ríki og sveitarfélög og foreldrar líka, taki á þessum vanda og glími þá við það að reyna að minnka andlega vanlíðan barna og það er hægt að gera það með því að skrúfa aðeins niður hraðann í samfélaginu, hann er ansi mikill og miklar kröfur gerðar á börn og fjölskyldur og það þarf líka að skoða, að margra mati samfélagsmiðla og skrúfa niður aðeins símanotkun.“ Þá segir Siv að einnig sé brýnt að bæta svefnvenjur barna og auka félagslega samvinnu.
Vilja frekari aðkomu fagfólks
Það ætti að vera á allra herðum að bæta úr og þar gegna skólar lykilhlutverki, á eftir foreldrum, að sögn Sivjar, enda séu börn stóran hluta dagsins í skólanum. Á málþinginu í morgun hafi verið kallað eftir því að fagfólk komi í auknum mæli „inn á gólfið“ í skólum þar sem börnin eru. Þannig geti það aðstoð kennara og skólastjórnendur við að glíma við skólaforðun og hvetja börn til að mæta í skólann og sömuleiðis tryggja að þeim líði vel þar.
Dæmi um mjög alvarleg tilvik skólaforðunar
Tilvik skólaforðunar eru mis alvarleg. Siv segir dæmi um mjög alvarleg tilvik þar sem börn mætti hreinlega ekki í skóla, þrátt fyrir skólaskyldu. „Kerfið hefur hálf gefist upp á þeim og þetta er auðvitað ekki í anda réttinda barna að vera í þessari stöðu því að börn eiga rétt á skólagöngu og það á að styðja þau í henni þannig að þetta eru auðvitað mis alvarleg tilvik en sum eru mjög alvarleg.“