Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, tók fagnandi á móti íslenska Eurovisionhópnum þegar hann lenti í Keflavík í gær og segir Íslendinga geta verið stolta af sínu fólki í keppninni í ár.

Útvarpsstjórinn var ekki sá eini sem fagnaði heimkomu Hatara, því hópur félaga úr félaginu Ísland-Palestína var mættur á völlinn til að þakka sveitinni stuðninginn sem hún sýndi málstað Palestínumanna með því að hefja merki þeirra á loft í beinni útsendingu frá græna herberginu þegar stigagjöfin var kynnt.

Framkvæmdastjórn söngvakeppninnar var ekki jafn ánægð með þann gjörning og er þess beðið hvort og þá hvaða afleiðingar hann hefur fyrir RÚV og þátttöku Íslands í keppninni að ári.

Ekki stórar áhyggjur

Magnús Geir segist ekki hafa stórar áhyggjur af því, enda hafi ýmsum fánum verið veifað í áratugalangri sögu keppninnar. Hann viðurkennir þó að honum hafi brugðið nokkuð þegar hann sá Palestínuborðana fara á loft, enda hafi hann ekki vitað að þetta stæði til. Magnús Geir er hins vegar mjög ánægður með frammistöðu Hatara á sviðinu og finnst þeir stórkostleg gjörningasveit. „Mér finnst þetta ferðalag hafa verið heilmikill listviðburður sem við getum verið stolt af," segir útvarpsstjóri.