Lögreglan á Norður-Ítalíu lagði í gær hald á öflugt flugskeyti, hríðskotabyssur, tugi veiðiriffla og skotfæri í aðgerðum gegn hópum öfgamanna á svæðinu. Þrír eru enn í haldi en við húsleitir fundust mikið af áróðursefni nýnasista og minjagripum tengdum Adolf Hitler og nasistum. Talið er að öfgamenn hafi ætlað að selja flugskeytið hæstbjóðanda. Lögreglustjóri í Tórínó segir það nánast fordæmalaust að ítalska lögreglan leggi hald á svo mikið af vopnum.
Öfgamennirnir sem voru handteknir eru allir með tengsl við aðskilnaðarsinna í Úkraínu en ítalska lögreglan hefur upp á síðkastið rannsakað hópinn og tengsl hans við aðskilnaðarsinna. Lögregla segir flugskeytið, Matra Super 530 F, framleitt í Frakklandi. Það er um þrír og hálfur metri á lengd en samkvæmt fréttum ítalskra miðla hefðu öfgamenn líklega fengið um 470 þúsund evrur fyrir það, jafnvirði tæplega 68 milljóna íslenskra króna.
Fabio Del Bergiolo er meðal þeirra þriggja sem voru handteknir. Hann er fimmtugur og fyrrverandi frambjóðandi fasistaflokksins Forza Nuova. Flokkurinn birti fréttatilkynningu í dag þar sem fram kemur að Del Bergiolo hafi ekkert komið nálægt starfsemi flokksins upp á síðkastið. Við leit á heimili hans fannst mikið af vopnum og áróðursefni en tveir til viðbótar voru handteknir, Ítali á sextugsaldri og Svisslendingur á fimmtudagsaldri. Lögregla hefur farið í fjölda húsleita í nágrenni Tórínó síðustu mánuði. Matteo Salvini innanríkisráðherra hefur ekki tjáð sig um atvikið en stjórnarandstæðingar krefjast þess að stjórnvöld bregðist við mikilli fjölgun hægri-öfgamanna síðustu ár.