Fleiri finna ástina á samfélagsmiðlum í dag en eftir hefðbundnum leiðum. Ný bandarísk rannsókn leiðir í ljós að fólk reiðir sig á tölvur og snjalltæki þegar það finnur sér lífsförunaut, frekar en vini og kunningja eða samskipti augliti til auglitis. Hvað verður um ást við fyrstu sýn á Tinder?
Einar litli er kátur að fá að horfa á Hvolpasveitina. Foreldrar hans, Glódís Guðgeirsdóttir og Steinþór Helgi Arnsteinsson leyfa honum að horfa á þátt á meðan við ræðum hvernig þau kynntust, og lögðu grunninn að fjölskyldunni sinni.
Glódís er ekki í vafa um hvað vakti áhuga hennar á Steinþóri: Það voru krullurnar. Og hann féll fyrir brosi hennar.
Kynntust á Tinder
Glódís og Steinþór kynntust á samfélagsmiðlinum Tinder. Tinder er stefnumótaapp sem notar upplýsingar um útlit, áhugamál og landfræðilega staðsetningu til að leiða fólk saman til náinna kynna. Og það er ekkert óvenjulegt eða skrítið við að finna lífsförunaut sinn á netinu.
Samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn reiðir fólk sig ekki lengur á vini og kunningja, eða samskipti augliti til auglitis í makaleit. Meirihluti fólks finnur ástina í gegnum samfélagsmiðla og snjalltæki, og það getur haft heilmikla kosti.
Steinþór segir að makaleit á netinu geti auðveldað fólki að kanna bakgrunn þeirra sem vekja áhuga þeirra, og Glódís bendir á að það sé auðveldara að stjórna því hvernig maður kemur fyrir við fyrstu sýn.
„Maður getur búið sér til ákveðna ímynd af sjálfum sér, sem getur verið röng eða rétt, eftir því hvernig hinn aðilinn túlkar það,“ segir hún.
39% kynntust á netinu
Félagsfræðingurinn Michael Rosenfeld við Stanford-háskóla gerði rannsóknina og birti nýlega í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Rosenfeld komst að því að árið 2017 höfðu 39 prósent gagnkynhneigðra para í Bandaríkjunum kynnst með aðstoð internetsins, en þau voru 22 prósent árið 2009. Af samkynja pörum höfðu 70 prósent kynnst á netinu árið 2017. Arnar Eggert Thoroddsen, félagsfræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands, þar sem hann fjallar meðal annars um samfélagsmiðla, segir þessi áhrif þeirra enn ókönnuð á Íslandi.
„En ég fagna þessari rannsókn Rosenfelds. Hann kemur, eins og Ameríkanar gera oft, úr pósitíva skólanum, hann sér jákvæða þróun. Evrópskir fræðingar geta verið tortryggnari. Hann leysir upp ákveðna bannhelgi yfir því hvernig fólk kynnist, og lýsir því hvernig það er að breytast á náttúrulegan hátt."
Eðlileg þróun eða óhugnarleg framtíðarsýn
Arnar Eggert bendir á að samskipti í dag fari að miklu leyti í gegnum internetið.
„Þetta viðtal var bókað í gegnum internetið,“ bendir hann á. „Það er að verða eðlilegur og náttúrulegur hluti af samfélaginu, þannig að auðvitað kynnist fólk líka í gegnum inernetið og samfélagsmiðla. Þú átt þína vini þar, og rannsóknir sýna að það er gott að viðhalda vináttu í gegnum stutt skilaboð í gegnum samfélagsmiðla. Þannig að þetta hljómar líka eðlilega. Ég skil alveg að fólk sjái fyrir sér hryllilega senu eins og út úr 1984, þar sem við erum öll orðin vélmenni með símana okkar úti í horni. En það er líka hægt að taka annan vinkil á þetta sem heyrist æ sjaldnar: að þetta er einfaldlega náttúruleg þróun.“
Rosenfeld sýni fram á hvernig viðkynning á internetinu skili sér í alvöru samböndum, þar sem fræjunum er sáð á samfélagsmiðlunum. Arnar Eggert segir að ekki sé dregin upp dökk mynd af þróuninni í rannsókninni, Rosenfeld líti þvert á móti á hana sem jákvæða.
„Rannsóknin sýnir í rauninni að samfélagsmiðlarnir hjálpa óframfærnu fólki að bindast öðru fólki tilfinningaböndum,“ segir hann.
En er þetta ekki óhugnanleg þróun? Við gjöldum varhug við algóritmunum á Facebook, að það sé verið að safna um okkur upplýsingum, selja þær áfram og nota þær jafnvel til að stjórna okkur - er það ekki óhugnanlegt ef við erum farin að láta algóritmann velja handa okkur maka líka? Erum við ekki að hleypa honum ansi nálægt okkur?
„Þetta er góður punktur, og mann hryllir við þessu líka, að allt sé orðið svona fjarstýrt og vélrænt og allt gert í gegnum tölvur,“ segir Arnar Eggert. Hann tekur þó streymisveitur eins og Spotify sem dæmi, þar sem veitan velur í sífellu nýja tónlist út frá þeirri sem hlustandinn spilar mest, og bendir á nýjar hljómsveitir sem hann kann að meta. Þannig getur sjóndeildarhringur hlustandans víkkað, möguleikarnir aukist á að finna skemmtilega tónlist.
„Og það virkar,“ segir hann. „En ég skil líka hitt, að þetta kunni að virðast ákveðin leti, þú situr bara í símanum og lífsförunauturinn er færður til þín af einhverjum algóritma. En svona er mannskepnan, að einhverju leyti. Við notum tæknina til auðvelda okkur og einfalda lífið.“
Stolt af því að hafa kynnst á Tinder
Arnar Eggert kveðst ánægður með að enginn skammist sín lengur fyrir að hafa kynnst maka sínum á netinu.
„Ég er ánægður með að það skuli vera búið að fjarlægja þessa bannhelgi yfir því að það sé eitthvað að því að kynnast á þessa vegu, að þá sértu ekki jafngóður og sá sem fór á fyllerí á barnum og kynntist félaganum þar. Það er svolítið verið að rústa þessari rómantík,“ segir Arnar Eggert.
Steinþór og Glódís taka undir að það sé liðin tíð að fólki finnist vandræðalegt að hafa kynnst á Tinder.
„Ég segi stolt frá því að við höfum kynnst á Tinder,“ segir Glódís, og Steinþór samsinnir því.
Ást við fyrsta „match“
En hvað verður um gamaldags rómantíska hrifningu, þar sem eitt augnatillit eða höfuðhreyfing slær fólk út af laginu, sviptir það ráði og rænu - getur algóritminn komið í staðinn fyrir Amor gamla og örvar hans? Það bendir margt til þess, og Steinþór og Glódís fullyrða að það sé alveg jafn rómantískt að kynnast á internetinu og eftir hefðbundnari leiðum.
„Það skapar spennu þegar fólk kynnist á netinu, þannig að þegar þau loksins hittast og af þessu verður, þá verður einhvern veginn meira á bak við það,“ segir Steinþór.
Fannst ykkur eitthvað óþægilegt við tilhugsunina um að það væri einhver algóritmi að púsla ykkur saman en ekki tilviljanir í kunningjakreðsunni?
„Nei, ég held ekki,“ segir Glódís. „Ég held að maður geri sér grein fyrir því þegar maður skráir sig inn að fullt af fólki muni sjá það.“
„Þetta gerðist frekar fljótt hjá okkur,“ segir Steinþór. „Ég var bara búinn að vera inni í nokkra tíma, hún var fyrsta matchið mitt. Ég held að það hljóti að vera tilviljun. Ég held Tinder sé nú ekki alveg svo þróaður.“
Ást við fyrsta match?
„Akkúrat!“ segir Glódís, og þau hlæja. Hvolpasveitin er búin og Einar litli þarf að fá að borða, alvara lífsins er tekin við.