Að nota móbergið í Helgafelli sem gestabók er út í hött, segir landvörður. Fylking sjálfboðaliða og landvarða hélt á Helgafell í dag með vírbursta til að afmá nöfn og tákn sem krotuð höfðu verið á móbergið. Til að hindra frekara krass þarf að stika leiðina upp, að mati landvarðar.
„Þetta er mjög djúpt. Það er spurning hvort við náum að fjarlægja þessa stafi með þessum bursta hérna. En það er margt annað sem við getum fjarlægt með svona burstum,“ segir Birna Björk Árnadóttir, landvörður hjá Umhverfisstofnun.
Hreinsuðu hátt í 100 tákn úr berginu
Krass í móberg Helgafells, ofan Hafnarfjarðar er ekki nýtt vandamál. Eftir að typpamyndir og fangamerki vöktu athygli í júní kærði Umhverfisstofnun náttúruspjöllin til lögreglu. Um tuttugu sjálfboðaliðar frá Veraldarvinum í fylgd landvarða afmáðu um 100 tákn af fjallinu í dag, bæði gömul og ný.
„Þetta er náttúrulega bara eins og einhver framlenging á gestabókinni sem er hérna upp á Helgafelli. Það er algjörlega út í hött að fólk sé að krota hérna nafnið sitt,“ segir Birna Björk jafnframt.
„Það eru á þremur stöðum, för sem eru unnin með verkfærum hreinlega. Við verðum bara að taka þetta aðeins til að byrja með, og svo aftur næsta ár og næsta ár. Og svo verður þetta farið,“ segir Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi.
„Það var bara of mikið sem er í gangi hér, þetta sprakk bara,“ segir Óskar. Finnst þér tilefni til að girða gönguleiðina betur af, eða eitthvað slíkt? „Ég er ekki fylgjandi þess að setja upp skilti. Ein leið er að stika þetta, við stikur er hægt að koma upp ábendingum og skiltum. Þannig það sé þá að stinga í stúf við náttúruna,“ segir Óskar jafnframt.