Frumvarp um að lækka hinn svokallaða bleika skatt, á tíðavörur og getnaðarvarnir var samþykkt á Alþingi í dag. Tími til kominn, sögðu vegfarendur sem fréttastofa tók tali í dag.
Frá því að lögin taka gildi fyrsta september munu þessar vörur bera 11% virðisaukaskatt. Áður var lagður tuttugu og fjögurra prósenta virðisaukaskattur á tíðavörur og getnaðarvarnir. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram. Bleiki skatturinn hefur oft verið gagnrýndur þar sem hann leggst nánast alfarið á konur.
„Mér líst bara mjög vel á að þau ætli að lækka þetta. Þetta er ekkert ódýrt. Það er bara kominn tími á það,“ segir Anna Lovísa Jónsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem var samþykkt í dag með 43 atkvæðum. Níu greiddu ekki atkvæði. „Ég vildi bara nota þetta tækifæri til að hvetja neytendur - þá auðvitað konur að fylgjast grannt með fyrsta september og athuga hvort að þessi mikilvæga skattalækkun skili sér ekki út í verðlagið,“ sagði Þórhildur Sunna fyrir atkvæðagreiðsluna.
Markmiðið með lagabreytingunni er að draga úr kostnaði við nauðsynlegar hreinlætisvörur, og jafna aðgengi að ólíkum getnaðarvörnum. Áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna þessa er um 42 milljónir á ári. Á móti er skattalækkunin talin bæta lýðheilsu og spara fé í heilbrigðiskerfinu.
Hvernig líst þér á þessa lagabreytingu? „Bara mjög vel. Þetta er mjög viðeigandi, þetta er eitthvað sem allar konur þurfa að nota,“ segir Íris Blöndal Kjartansdóttir
„Bara mjög vel. Þetta eru alveg auka útgjöld hjá okkur þannig að bara gott mál,“ segir Regína Fossdal.