Að öllu jöfnu eru haldnar fimm messur um hverja helgi í Landakotskirkju, kirkju kaþólskra, og kirkjan er full í hvert einasta skipti. Þetta segir sr. Jakob Rolland, prestur kaþólskra í Reykjavík.
Jakob segir að um 15.000 manns séu í kaþólska söfnuðinum hér á landi. Hins vegar séu afar margir útlendingar sem hér búi, aðallega frá Austur-Evrópu, kaþólskir og margir þeirra skrái sig ekki í söfnuðinn. Kirkjusókn sé mjög góð, að jafnaði eru haldnar fimm messur í Landakotskirkju um hverja helgi og kirkjan er alltaf full út úr dyrum. Dæmi eru um, segir Jakob, að kirkjugestir standi úti á túni og fylgist með messu. Þá heimsæki margir ferðamenn kirkjuna, bæði til þess að skoða hana og eins til að sækja kaþólska messu. Sem dæmi um aðsókn ferðamanna, nefnir Jakob að kirkjusókn er mest í júlí.
Kaþólski söfnuðurinn í Íslandi hefur í nægu að snúast um þessar mundir. 30 ár eru frá heimsókn Jóhannesar Páls páfa annars hingað til lands og í sumar eru 90 ár síðan kaþólska kirkjan á Landakoti var vígð. Beggja viðburða er minnst með ýmsum hætti.
Séra Jakob Rolland, prestur kaþólskra í Reykjavík, hefur búið hér á landi í 35 ár. Hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 og sagði hlustendum frá starfi kaþólska safnaðarins á Íslandi.
Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan.