Átta fyrirtæki bjóða ferðamönnum að kafa í Silfru og allt að 300 manns kafa þar daglega. Þetta segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, en hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

Einar segir að árlega kafi 50-60.000 manns í Silfru, en að fyrirtækin sem fái leyfi til að starfa þar lúti ströngum reglum og eftirliti. 

Allur viðbúnaður hafi verið hertur til muna á síðustu árum og til að mynda sé sjúkraflutningamaður í þjóðgarðinum alla daga frá kl. 9 til 17.

Hann segir að þjóðgarðurinn hafi engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við að heimila köfun í Silfru. 

Heimsminjanefnd UNESCO hefur óskað skýringa íslenskra stjórnvalda á starfsemi köfunarfyrirtækja í Silfru á Þingvöllum. Íslenskur lögmaður sendi kvörtunina til UNESCO og segir að umsvifin skapi sjónmengun fyrir aðra gesti þjóðgarðsins og auki álag á lífríki Silfru.

Einar segir að Þingvallanefnd sé að vinna að svari til Heimsminjanefndar og hann óttast ekki að þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði fjarlægður af heimsminjaskrá fyrir að leyfa fólki að kafa í Silfru.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Einar í spilaranum hér að ofan.