Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona og einn af stofnendum Gráa hersins segir að aldursfordómar grasseri í samfélaginu. Þetta kom fram á borgarafundi um málefni eldri borgara í beinni útsendingu úr myndveri RÚV. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að almannatryggingakerfið eigi að vera öryggisnet en ekki réttindakerfi. Viðar Eggertsson, leikstjóri mótmælir því.
„Aldursfordómar eru grasserandi. Það er ótrúlegt að horfa á þetta. Til dæmis þegar eldri stjórnmálamenn tjá sig um eitthvað mál - þá fá þeir að heyra að þeirra tími sé liðinn. Fólk hefur tjáningarfrelsi svo lengi sem það lifir,“ segir Erna Indriðadóttir stofnandi miðilsins Lifðu núna. Viðar Eggertsson tekur undir með henni. „Það er ótrúlega mikið að fólki sem upplifir aldursfordóma í samfélaginu.“
Almannatryggingakerfið eigi að vera öryggisnet
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar er ásamt félagsmálaráðherra á fundinum. Óli Björn beinir sjónum sínum að almannatryggingakerfinu. „Margir telja almannatryggingakerfið réttindakerfi, það er misskilningur. Almannatryggingakerfið er tryggingakerfi og á að vera öryggisnet. Það held ég að sé eina leiðin. Hin leiðin mun leiða okkur í efnahagslegar ógöngur,“ segir Óli Björn.
Viðar mótmælir þessu. „Almannatryggingakerfið var upphaflega hugsað sem lífeyrir fólks sem var búið að standa sína plikt í gegnum ævina - borga sína skatta og skyldur í 40-50 ár og fær þetta kerfi að lokum. Lífeyrissjóðirnir voru hugsaðir sem eins konar skyldusparnaður til viðbótar við almannatryggingar,“ segir Viðar jafnframt.
Borgarafundurinn stendur til klukkan níu í beinni útsendingu á RÚV. Umsjónarmenn eru Einar Þorsteinsson og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir.