Ieda Jónasdóttir Herman er 93 ára. Þrátt fyrir að eiga einungis tæp sjö ár í 100 ára afmælið, lætur Ieda það ekki hindra sig í því að uppfylla drauma sína. Í fyrrasumar fór hún í svifvængjaflug, ísklifur og renndi sér í zip-lining, allt sama daginn.
„Ég er næstum hundrað ára. En frænka mín varð eldri en hundrað ára, þannig að ég á mörg ár framundan,“ segir Ieada. „Þannig að ég verð að skipuleggja alls konar skemmtilega hluti til að sjá og upplifa, vegna þess að kannski á ég tíu ár eftir ólifuð. Ef ekki, þá það, en ef ég á tíu ár eftir þá ætla ég ekki að sóa þeim.“
Frá því að hún var barn hefur Ieda látið sig dreyma um að geta flogið. Hún ákvað því að reyna svifvængjaflug. „Ég verð aldrei of gömul til að reyna eitthvað nýtt,“ segir hún.
Trúlofuð eftir 48 klukkustunda kynni
Ieda ólst upp í Reykjavík og á Vopnafirði. Hún flutti til Bandaríkjanna eftir að hafa kynnst bandarískum hermanni á stríðsárunum. „Hann hét Delbert Herman, en allir hér heima kölluðu hann bara Hermann,“ segir Ieda.
Tveimur sólarhringum eftir að þau kynntust voru þau trúlofuð. „Heyrðu, við vorum gift 70 ár, það var rétt,“ segir Ieda, en þau Delbert voru saman allt þar til hann lést árið 2015. Á stríðsárunum var bandarískum hermönnum óheimilt að kvænast íslenskum konum, en Ieda og Delbert voru fyrsta parið sem fékk leyfi til að gifta sig.
Skírnarnafn hennar var Ída, en til þess að Bandaríkjamenn myndu bera nafn hennar rétt fram breytti hún því í Ieda. „Afi sagði alltaf að nafnið mitt væri ekki íslenskt. Þú ættir að heita Þorgbjörg, sagði hann. En mamma mín vildi að ég héti Ída.“
Þrátt fyrir að hafa búið um sjötíu ár í Bandaríkjunum þá hefur Ieda aldrei gleymt uppruna sínum og er dugleg við að kynna íslenskar hefðir og venjur víða um Bandaríkin, meðal annars með því að gefa út bækur um æsku sína á Íslandi og matreiðslubækur um íslenska matreiðslu ásamt dóttur sinni.
Í myndinni Aldrei of seint kynnumst við sögu Iedu Herman sem segir aldrei of seint að láta ævintýrin rætast. Myndin verður sýnd á föstudaginn langa á RÚV.