Palestínskur karlmaður, sem búsettur er í Svíþjóð, hefur verið ákærður fyrir að smygla sjö venesúelskum ríkisborgurum til Íslands í janúar og febrúar á þessu ári. Maðurinn lá um tíma undir grun fyrir mansal en hann er ekki ákærður fyrir það „þar sem erfitt reyndist að sanna slíkt,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarsaksóknari í samtali við fréttastofu Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan mars og hefur neitað því að eiga nokkra aðild að komu fólksins.
Fréttin hefur verið uppfærð
Manninum er gefið að sök að hafa staðið að skipulagðri starfsemi við að aðstoða útlendinga að koma ólöglega landsins. Í gæsluvarðhaldsúrskurði sem staðfestur var í Landsrétti á föstudag kom fram að lögreglan teldi sig hafa rökstuddan grun um að í þessum sjö manna hópi væru tvö systkini sem væru fórnarlömb mansals og að þau kynnu af þeim sökum að vera í afar viðkvæmri stöðu. Maðurinn er þó ekki ákærður fyrir brot gegn mansalskafla hegningarlaga.
Í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun, sést að ferðalag fólksins frá Venesúela hingað til lands hefur verið býsna flókið og er maðurinn sagður hafa annast bókun á ferð þeirra og fylgt þeim á ferðaleið þeirra.
Fólkið flaug frá höfuðborginni Karakas til Madrídar á Spáni og þaðan til Íslands eftir að hafa millilent í Zürich. Systkinin komu til landsins í janúar í þeim tilgangi að sækja um alþjóðlega vernd og í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að maðurinn var með vegabréf þeirra beggja í ferðatösku sinni.
Hinir fimm komu síðan til landsins mánuði seinna. Í áðurnefndum gæsluvarðhaldsúrskurði kom fram fólkið sagðist fyrst ætla að dvelja hér í fimm daga en eftir frekari viðræður á varðstofu lögreglu óskaði kona úr hópnum eftir alþjóðlegri vernd fyrir sig og fjölskyldu sína. Hún sagðist vera flýja pólitískar ofsóknir í Venesúela ásamt fjölskyldu sinni og hefði ákveðið að koma til Íslands eftir að hafa fengið þær upplýsingar að hér væri öruggt að vera fyrir bæði konur og börn. Þá hefði Ísland orðið fyrir valinu þar sem Venesúela væri ekki með sendiráð hér á landi.
Hálfgert ófremdarástand hefur ríkt í Venesúela að undanförnu. Langvarandi skortur hefur verið á helstu nauðsynjum, þar á meðal mat og lyfjum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, gerði ástandið í landinu að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gærkvöld þar sem hann sagði ástandið vera hreint út sagt skelfilegt. „ Fólk sveltur, rafmagnsskortur er viðvarandi, jafnvel á sjúkrahúsum, vatn er að verða munaðarvara, alger skortur er á öllum helstu nauðsynjavörum.“
Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvort sjö-menningarnir frá Venesúela hafi fengið alþjóðlega vernd á Íslandi eða hvar það er niðurkomið. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun bárust sextán umsóknar um alþjóðlega vernd frá fólki með venesúelskt ríkisfang fyrstu þrjá mánuði ársins. Af þeim hefur einn hlotið alþjóðlega vernd og þrír viðbótarvernd. Hinar umsóknirnar eru enn í vinnslu.