Í njósna- og spennusögunni Hugvillingi eftir Úlfar Þormóðsson tengir höfundur hugmyndir um sýndarveruleika framtíðar og ógnvekjandi möguleika hans við þjóðtrú, andatrú og drauga. „Þetta er allt saman mjög áhugavert en ég veit ekki alveg hvort hann nær að kjarna þetta þannig að það verði beinlínis spennandi,“ segir Þorgeir Tryggvason gagnrýnandi Kiljunnar.
Aðalpersóna skáldsögunnar Hugvillingur er, líkt og höfundur hennar, rithöfundur og fyrrum blaðamaður. Hann er í miðjum klíðum með umfjöllun sína um trú, vantrú og furðurnar í lífi sínu þegar dularfull skilaboð birtast á tölvuskjá hans. Skilaboðin má rekja til embættismanns sem býr yfir leynilegum upplýsingum um myrkraverk sem verið er að fremja innan stjórnkerfisins. Embættismaðurinn vill fela rithöfundinum það verkefni að rannsaka málið og opinbera. Gangrýnendur Kiljunnar, þau Þorgeir Tryggvason og Guðrún Baldvinsdóttir, rýndu í Hugvilling eftir Úlfar Þormóðsson.
„Hér er Úlfar að skrifa einhverskona spennu- og njósnasögu með aðalpersónu sem manni finnst eiginlega vera Úlfar Þormóðsson sjálfur; fyrrum blaðamður sem fæst við skriftir, röltir um miðbæinn og hittir andans menn á kaffihúsum á Skólavörðustíg. Svo er hnippt í hann af manni sem vill fara að ljóstra upp um dularfulla hluti sem eru á seyði og segja honum hvernig lá í samtali sem hann heyrði fyrir mörgum árum síðan,“ segir Þorgeir Tryggvason. Hann segir ljóst sé að hér sé höfundur að leika sér með atburði sem áttu sér stað í kringum hrunið sem þróist í að snúast um tækninýjungar, hugbreytandi smáforrit og hleranir. „Smám saman verður þessi heimur meira paranojuþrunginn og maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið,“ segir Þorgeir og bætir við að höfundi takist að sumu leyti vel upp við að tengja sýndarveruleika framtíðar og ógnvekjandi möguleika hans við þjóðtrú, andatrú og drauga. „Þetta er allt saman mjög áhugavert en ég veit ekki alveg hvort hann nær að kjarna þetta þannig að það verði beinlínis spennandi,“ segir hann og Guðrún tekur undir.
„Ég get sagt margt um bókina en spennandi fannst mér hún ekki. Hún var lengi að ná mér en hann fer svolítið um víðan völl með tæknina og svo erum við leidd svolítið úr einu í annað,“ segir Guðrún og bætir við að stundum hafi henni þótt erfitt að átta sig á því sem væri að gerast í bókinni framan af. „En í lokin nær hann að flétta þetta saman. Ég var mjög hrifin af þessum tæknihugmyndum sem hann fjallar um og þessu með hendingarnar, hvernig við upplifum að það séu tilviljanir sem leiða okkur áfram en líka að það sé verið að fylgjast með okkur. Bókin náði mér þó ekki alveg.“
„Þetta kemur ekki alveg heim og saman þó þarna sé þyrlað upp alls konar skemmtilegum pælingum og þrúgandi andrúmsloft skapað í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Þorgeir að lokum.
Rætt var um Hugvilling eftir Úlfar Þormóðsson í Kiljunni.