Átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda í borginni Sha Tin í Hong Kong. Áfram er mótmælt nýju lagafrumvarpi sem er talið auðvelda kínverskum yfirvöldum að herja á pólitíska andstæðinga sína en þessu hefur verið mótmælt víða í Hong Kong síðustu vikur.

Tugir þúsunda mótmæltu frumvarpinu friðsamlega í borginni Sha Tin, sem er á milli Hong Kong eyju og landamæra Kína. Frumvarpið kveður á um að grunaðir glæpamenn geti verið fluttir til Kína svo hægt sé að rétta yfir þeim þar. Mótmælendur segja að frumvarpið bjóði upp að að þeir, sem kínverskum yfirvöldum hugnast ekki, séu ofsóttir.

Í Sha Tin í dag kröfðust mótmælendur þess einnig að þeir, sem hafa verið teknir höndum í mótmælaaðgerðum síðustu vikna, verði látnir lausir. Stuttu eftir klukkan fimm síðdegis, að staðartíma, brutust út átök á milli lögreglu og mótmælenda. Mótmælin voru með leyfi yfirvalda og mótmælendum hafði verið gert að halda sig innan ákveðins svæðis. Einhverjir fóru út fyrir svæðið og lögreglan brást við með því að beita piparúða gegn mótmælendunum. Umsátursástand myndaðist og óeirðalögregla var kölluð til. Mótmælendur vörðu sig meðal annars með regnhlífum og notuðu umferðarkeilur til að búa til götuvígi.

Í gær, laugardag, beittu lögreglumenn piparúða og kylfum á mótmælendur í Sheung Shui, nálægt kínversku landamærunum, eftir að mótmælendur  neituðu að yfirgefa svæðið eftir að formlegum mótmælum lauk. Tveir voru handteknir en mótmælendur voru meðal annars sakaðir um að ráðast á lögreglumenn og kasta í þá járnstöngum auk þess að setja upp vegartálma til að hamla ferðum lögreglu. 

Ýmislegt hefur gengið á í mótmælum síðustu vikna. Meðal annars hafa mótmælendur brotið sér leið inn í þinghúsið og unnið skemmdir á því. Yfirvöld í Kína og stjórnin í Hong Kong hafa fordæmt framferði þeirra.