Erfið bernska getur leitt af sér alls kyns langvinna sjúkdóma á fullorðinsárum. Þetta leiðir nýleg rannsókn í ljós. Þeir sem hafa átt erfiða æsku eru líklegri til að glíma við verri tannheilsu, bakflæði og hjarta- og lungnasjúkdóma.

Geðheilbrigði var umræðuefni á fundi Geðhjálpar og Virk starfsendurhæfingar í vikunni. Margrét Ólafía hefur starfað sem heimilislæknir og varði nýverið doktorsritgerð sína. Hún segir að þeir sem verða fyrir áfalli geti verið útsettari fyrir ýmsum sjúkdómum og kvillum.

„Við getum eiginlega nú í dag sagt að vísindin eru búin að sýna vel fram á það eru mikil og sterk tengsl, sérstaklega áfalla í æsku og svo langvinnra heilsufarsvandamála á fullorðinsárum. Nýrri rannsóknir sýna líka að mikil streita og erfiðleikar á fullorðinsárum spila þungt hlutverk varðandi þróun sjúkdóma,“ segir Margrét Ólafaía.

Hún vann rannsókn í Noregi. Athygli vakti að næstum helmingur úrtaksins glímdi við fjölveikindi en það þýðir að þeir séu með tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma.

„En næstu niðurstöður voru þær hversu sterk og mikil tengsl eru, að upplifa æsku sína erfiða og glíma við fjölveikindi á fullorðinsárum. Það er klassískt að segja andleg veikindi og í okkar rannsókn sáum við alveg sjöfalda áhættu á því að þróa með sér andleg veikindi á fullorðinsárum. Við skoðuðum 21 sjúkdóm. Og við sáum að tengslin voru sterk við ótrúlegustu sjúkdóma, í rauninni alla sjúkdómana sem við skoðuðum nema tvo. Þar má nefna verri tannheilsu, bakflæðissjúkdóma, alls kyns verkjasjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma. Í rauninni næstum alla langvinna sjúkdóma,“ segir Margrét Ólafía.

Hún hvetur til vitundarvakningar í samfélaginu og að betur sé hugað að börnum. „Að börn viti hvert þau gætu leitað á öruggan stað til að ræða svona hluti, það myndi skipta afskaplega miklu máli,“ segir Margrét Ólafía.