Landverðir hjá Umhverfisstofnun og sjálfboðaliðar á vegum Hafnafjarðarbæjar vinna nú að því að afmá typpamyndir, fangamörk og nöfn sem hafa verið rist í móberg í Helgafelli ofan við Hafnarfjörð að undanförnu.
Helgafell, sem er ein af vinsælustu gönguleiðum á höfuðborgarsvæðinu, hefur orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum sem finna sig knúna til að skilja eftir sig ummerki í náttúrunni.
Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, segir að tiltölulega auðvelt sé að afmá þessi ummerki af mjúku móberginu. Til þess séu notaðir öflugir vírburstar og handaflið. Mikið sé af slíkum förum á Helgafelli, enda geti á góðum degi eins og í gær verið tvö hundruð manns á fellinu í einu „og alltaf einn og einn þurfi að gefa út einhverja yfirlýsingu um að hann hafi verið hérna“ sagði Óskar í samtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur í beinni útsendingu í hádegisfréttum.
Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum kl. 19.