Á sjómannadaginn 1941 steig 50 manna hópur breskra hermanna með vélbyssur á land á Ísafirði. Þeir umkringdu hús, tóku sjö manns höndum og fluttu í fangabúðir í Bretlandi. Afi og amma Helga Felixsonar kvikmyndagerðarmanns voru á meðal þeirra sem handtekin voru fyrir meint samstarf við Þjóðverja.

Heimildamyndin Njósnir, lygar og fjölskyldubönd í leikstjórn Helga Felixsonar fjallar um skelfilega atburði á Ísafirði í seinni heimstyrjöldinni sem hafa fylgt fjölskyldu Helga Felixsonar allar götur síðan. „Amma og afi voru handtekin og ásökuð um að hafa verið að hjálpa grunuðum njósnara á Ísafirði um lengri tíma. Afi var á þessum tíma breskur ræðismaður en var sviptur þeim titli þessa nótt. Skyndilega var hann orðinn stuðningsmaður nasista  án þess að hafa hugmynd um það sjálfur,“ segir Helgi um þessa örlagaríku nótt sem er til umfjöllunar í myndinni. Hann segir að málið hafi verið þaggað niður og því fylgt mikil skömm. Myndin verður sýnd á RÚV á sunnudag.

„Ég hef eðlilega haft mikinn áhuga á þessu og rannsakað málið í um tíu ár. Ég fann ýmsar vísbendingar sem gefa til kynna ástæðuna fyrir þessum handtökum en það kemur allt fram í myndinni.“

Amma Helga var þýsk en þau afi hans kynntust í Bandaríkjunum. „Afi var sjómaður á seglskútu en 1907 yfirgaf hann skipið í New York þegar hann var orðinn leiður á sjómennskunni. Þá fékk hann vinnu við að smíða fyrsta háhýsi New York-borgar.“ Afi Helga dvaldist í borginni í tíu ár og á þeim tíma kynntist hann ömmu hans sem hafði farið til New York frá Dresden sama ár og hann.

Þegar stríðið skall á var afi hans kallaður í herinn. „Honum stóð til boða að fara í stríð við heimaland unnustu sinnar en afþakkaði það. Í staðinn giftust þau, fóru saman til Ísafjarðar og keyptu Gamla bakaríið á Ísafirði sem er sögulegur staður.“ 

Helgi segir að málið sé afar viðkvæmt, átök hafi geisað innan fjölskyldunnar og deilur orðið í kringum bakaríið um lengri tíma vegna málsins. „Þarna kemur Þjóðverji inn í söguna en sá var grunaður um njósnir og er stór örlagavaldur í þessu öllu saman. Það er hann sem hrindir þessum handtökum af stað með komu sinni í bæinn,“ segir Helgi. Hann segir að þótt sagan sé stærri en gengur og gerist ættu áhorfendur samt að geta speglað sjálfa sig í viðfangsefninu og tengt við það. „Við erum öll að kljást við þessa hluti, þessar þagnir og það sem er ósagt. Í raun og veru er þetta að einhverju leyti bara daglegt brauð úr bakaríinu,“ segir Helgi að lokum.

Njósnir lygar og fjölskyldubönd verður sýnd á RÚV sunnudaginn 9. júní klukkan 20.15. Viðtal við Helga í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, sem tekið var í tilefni af frumsýningu myndarinnar, má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.