Freyr Eyjólfsson kynnti sér nýjustu strauma og stefnur í matartískunni í sumar á hátíðinni Summer Fancy Food Show í New York.
Freyr Eyjólfsson skrifar:
Ár hvert er haldin mikil matarhátíð í New York undir yfirskriftinni: Summer Fancy Food Show. Þangað mæta frumlegir og uppfinningasamir matarframleiðendur til þess að sýna og bjóða upp á nýjar og skemmtilegar matarafurðir. Mikið er lagt upp úr lífrænum mat og einn helsti tilgangurinn með þessari vörusýningu að vekja athygli stóru risanna, eins og Whole Foods, á nýjum og spennandi matarvörum. Summer Fancy Food Show er líka eins konar tískusýning í mat – því þarna eru lagðar línurnar fyrir matartísku hvers árs.
Margt af því sem var í tísku á síðasta ári heldur áfram að þróast. Eins og hinn ævaforni indverski, ayurvedic-heilsukúr, sem hefur vakið mikla athygli og margir eru farnir að tileinka sér þennan holla og farsæla lífsstíl þar sem þú borðar í samræmi við orkustöðvar þínar, mjög ferskur matur, mikið grænmeti, nánast hráfæði. Sennilega einn elsti matarkúr heims. „Functional foods“ kúrinn er sömuleiðis að verða mjög vinsæll matarkúr – matur sem þjónar tilgangi, matur sem er góður fyrir þig og líkama þinn, grænmeti, fiskur, hnetur – kynnið ykkur endilega hvað functional food er – þetta er í tísku núna en er auðvitað eitthvað sem amma þín vissi og er margoft búin að segja þér fyrir löngu síðan.
Konur undir þrítugu elska kollagen
Kollagen-prótín eru á allra vörum hér í New York. Það er ekkert betra fyrir húðina og líffærin þín. Er ekki örugglega kollagen-prótín í drykknum eða matnum þínum? Á meðan sumir tala um kollagen-prótín sem mesta og hollasta undraefni sem maðurinn getur neytt, eru vísindamenn sem leyfa sér að efast og kalla eftir rannsóknargögnum sem sanni allar þær miklu fullyrðingar sem settar eru fram um kollagen-prótín. En kollagen er allavega í tísku. Fólk, sér í lagi konur yfir þrítugt, er farið að sturta í sig alls konar drykkjum, kókosvatni, heilsudrykkjum og kaldpressuðum söfum, sem innihalda kollagen.
Prótíndrykkirnir eiga að draga úr vöðvabólgu, gigt, bæta húðina, efla hárvöxt og bæta almennt alla heilsu, gera mann unglegri og hraustari.
En það er ekki bara hollustufæði sem er í tísku. Te er einn elsti og vinsælasti drykkur heims – en hvað með áfengt te? Mörg fyrirtæki eru farin að framleiða áfengt te sem margir telja að gæti orðið mikill tísku-sumardrykkur á börunum og víðar. Við erum að tala um hvítt te, klassískt svart te eða berjate – en nú með áfengi út í. Þetta er freyðandi, gerjað te, með náttúrlegri kolsýru, selt í dósum eða flöskum, eins konar sambland af íste og bjór. Eins konar kombucha-drykkur sem er líka seldur óáfengur. Slíkir drykkir, óáfengir gæða kombucha-te-drykkir eru sömuleiðis að þjóta upp vinsældarlistana.
Heimur hollustusnakksins
Fólki sem drekkur ekki áfengi fer fjölgandi, þetta er fólk sem vill samt fara út, njóta lífsins og njóta góðra drykkja og nennir ekki alltaf að drekka bragðlaust sódavatn. Margir hafa kosið áfengislausan lífsstíl – sem er nú reyndar orðið hálfgert tískufyrirbæri, þetta eru ekki bara áfengissjúklingar, margir eru „sober-curious“ – allsgáðir og forvitnir – og drykkjaframleiðendur eru meðvitaðir um þennan ört vaxandi hóp. Ég smakkaði nýlega drykkinn Töst, sem er seldur í fallegum vínflöskum, hvítt gerjað te, með trönuberja- og engiferbragði. Sannkallaður áramóta- og hátíðardrykkur fyrir þá sem drekka ekki vín. Annar slíkur drykkur er O.Vine – vatnavín, freyðandi greipaldindrykkur. Fyrirtæki eins og Mingle og Hella sérhæfa sig í óáfengum kokteilum, mokkteilum, sem er ef til vill tískudrykkurinn 2019.
Svo er það snakk. Snakk er ekki hollt. Það er fitandi. Beinlínis óhollt. En það er auðvitað hægt að kaupa hollt snakk, sem er búið til úr kjúklingabaunum, rauðbeðum, kínóafræjum; snakk sem þú getur sturtað í þig, jafnvel klárað heilu pakkana, án þess að fara á bömmer – og þetta er bara fínt á bragðið. Fyrirtæki eins og Vegan Rob's hafa náð miklum og merkilegum árangri að búa til hið fínasta snakk – sem er líka bráðhollt súperfæði. Túrmerik-, spínat-, sólblóma- og sveppasnakk hljómar eflaust framandi – en þetta er bara ljómandi gott og í tískusnakkið 2019. Það er líka hægt að fá sér gómsætt hnetusnakk með kakó- og kanilbragði. Prófið ykkur áfram. Ekki staðna í gömlu góðu kartöfluflögunum. Lifið og lærið! Heimur snakksins er stærri og meiri en ykkur óraði fyrir.
Hampolía og haframjólk rjúka úr búðum
Svo eru það rándýrir og hágæða hlaupadrykkir. Eftir ræktina – sturta í sig fimm þúsund króna flösku? Hvað með það? SoulCycle, Recover og Halo drykkirnir eru rándýra útgáfan af Gatorade. Enginn sykur, engin litarefni – einungis lífræn og bráðholl næringarefni, amlaber, glútamín og eitthvað fleira, sem ég veit ekkert hvað er, en er víst rosalega hollt. Þetta eru líka að verða vinsælir og sumir segja, vel heppnaðir þynnkudrykkir.
Svo er það CBD – allur kannabismaturinn, kannabisdrykkirnir og allt þetta CBD-dót sem nú sést út um öll Bandaríkin. CBD-bransinn er á hraðri uppleið. Allir fjárfesta nú í CBD-sprotafyrirtækjum. CBD er hampolía sem veldur ekki vímu en er talin hafa mikinn lækningarmátt. Ýmiss konar CBD-kombucha-drykkir eru sagðir hafa góð áhrif á geðheilsu og eru farnir að vera miklir tískudrykkir.
Þegar allflestir eru komnir með mjólkuróþol eða orðnir vegan - þá er haframjólkin málið. Haframjólk í kaffið, pönnukökurnar, ísinn, eftiréttina. Haframjólkin er sannarlega tískudrykkur og það varð hreinlega uppnám í matvöruverslun í Brooklyn nýlega þegar vantaði haframjólk. Að lokum eru það pungarnir – „balls“ – sem eru á allra vörum á flottustu kaffihúsunum hér í New York. Skemmtilegt og gómsætt, ef þig langar í eitthvað með kaffinu. Þetta eru litlar og sætar kúlur, innhaldið er döðlur, hnetur, hnetusmjör, kókos og fleira. Lítur út eins og hundamatur, en svakalega gott og stundum meira að segja hollt. Margs konar bragðtegundir. Hindberja-, súkkulaði-, límónu- og pistasíuástarpungar sem hleypa inn góðri orku og jákvæðum straumum.