„Fólk forðast það eins og heitan eldinn að tala um dauðann,“ segir Fjóla Dögg Helgadóttir doktor í klínískri sálfræði í viðtali í Síðdegisútvarpinu. Á mánudaginn fer fyrirlesturinn Af hverju er dauðinn tabú? fram í Veröld - húsi Vigdísar þar sem sálfræðingarnir og feðginin Ross og Rachel Menzies frá Ástralíu fjalla um rannsóknir sínar tengdar dauðakvíða.

Feðginin eru væntanleg til landsins á leið sinni á heimsráðstefnu í hugrænni atferlismeðferð. Fjóla lærði sálfræði í Ástralíu þar sem Ross var leiðbeinandi í doktorsverkefni hennar.

Rannsóknir þeirra byggjast á því að horfast í augu við óttann um dauðann, að fylla lífið tilgangi og vellíðan til að vinna gegn kulnun og öðrum geðheilsuvandamálum. „Þau vilja meina að rótin að svo mörgum öðrum vandamálum liggi í þessum kvíða gagnvart dauðanum,“ segir Fjóla. „Ef þú talar ekki um dauðann þá eru kannski hlutir sem þig langar til að verði t.d. í jarðarförinni hjá þér eða með börnin þín, kannski með arfinn, bara alls kyns hlutir sem er betra að ganga frá á meðan maður hefur vit og rænu til.“

Samfélagið einblíni sífellt meira á núvitund og mikilvægi þess að njóta líðandi stundar. Fjóla segir að það að hugsa fram í tímann um hverju fólk vilji koma í verk og hver gildin í lífinu séu, geti leitt til þess að fólk njóti lífsins betur. Það geti farið mjög vel saman að hafa skipulag en njóta þess einnig að labba heim úr vinnunni og vera í núinu.

Fjóla er í samstarfi við feðginin og vinnur nú að hugbúnaði sem mun hjálpa fólki að eiga við dauðakvíða og byggist á rannsóknum þeirra. 

Í fyrirlestrinum fjalla Ross og Rachel um rannsóknir sínar á þessu viðkvæma málefni sem flestir vilja forðast og af hverju fólki finnst svona erfitt að ræða dauðann. „Það er engin ein rétt leið. Sumir geta talað um dauðann og hlegið í einhverju samhengi og það er bara þeirra leið en aðrir ekki. Það er líka bara allt í lagi. Við þurfum ekki öll að vera með eins nálgun,“ segir Fjóla.

Fyrirlesturinn Af hverju er dauðinn tabú? fer fram í Veröld, húsi Vigdísar, Háskóla Íslands mánudaginn 15. júlí á milli kl. 12-13. Aðgangur er ókeypis en hægt er að skrá sig hér.