Snorri Páll Úlfhildarson Jónsson heldur áfram að fjalla um hlutskipti hins stritandi manns og linnulausar tilraunir hans til að skilja það, umbylta og losna undan því.
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar:
„Hví skyldi ég strita? [...] Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Ég var ófæddur. Ég sóttist ekki eftir því að fæðast; né heldur unni ég ástandinu sem ég fæddist inn í.“
Þannig spyr Kaín, frumburður Adams og Evu, í ljóði Byrons lávarðar. Ósáttur við hlutskiptið sem honum hlotnaðist í arf. Dæmdur til að erfiða ævina á enda — yrkja jörðina frekar en njóta gjafa hennar eingöngu — vegna þeirrar ákvörðunar foreldra hans að óhlýðnast skapara sínum og bragða á forboðinni fíkju skilningstrés góðs og ills. Fram að syndafalli höfðu þau ástundað sældarlífið, allsnakin og blygðunarlaus innan um ofgnóttir súpermarkaðsins. Uppveðruð af hvatningu Guðs um að nærast og neyta, fylla jörðina af sínum líkum og gera hana sér undirgefna. En í tyftunarskyni fyrir óþekktina fleygir hann þeim á dyr og setur Kerúba, vængjaða sekúrítasmenn, við alla innganga. Á Adam og Evu eru saumaðir skinnkyrtlar, enda nú orðin spéhrædd. Líbídóið skítugt; konunni tilkynnt að barnsburður verði henni og öllum hennar kvenlegg bölvað vesen; karlkynið þvingað til að snúa baki við alsælu og eilífum frístundum, og halda þess í stað út á vinnumarkaðinn. Jörðin sé bölvuð þín vegna, segir Guð:
„Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn.“
Við taka fyrstu skref þeirrar iðju sem Karl Marx kallaði síðar „aðlögun náttúrugæðanna að þörfum mannsins.“ Kaín yrkir jörðina en Abel, yngri bróðir hans, hirðir um búfénaðinn. Saman skipta þeir bróðurlega á milli sín „fargi hins daglega strits“ í veröld sem virðir þá einskis og ávaxtar þeim „ekkert nema fyrir svita,“ eins og Byron leggur þeim eldri í munn í ljóði sínu.
„Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta? Ég var ófæddur.“ Þannig lýsir Kaín þraut sem alla tíð hefur íþyngt manninum. Hann kemur nauðugur viljugur í heiminn — óspurður, óundirbúinn, óviss um ástæður komu sinnar, hlutverk og tilgang — og neyðist til að aðlagast fjandsamlegum aðstæðum sem hann kom hvergi nálægt því að skapa. Í fáránlegri og merkingarlausri tilveru, líkt og franski absúrdistinn Albert Camus undirstrikaði, er sjálfsmorðið hið eina sanna viðfangsefni heimspekinnar . Hvort slíkt líf sé þess virði að lifa eða ekki — en til að gera þá glímu sem flóknasta er við fæðingu græddur lífsvilji í hverja veru. Nægi hann ekki stendur urmull annarra hindrana í veginum, frá abrahamískum eingyðistrúarbrögðum erfir maðurinn siðferðislega fordæmingu á sjálfsmorðinu. Það er synd, afneitun á dýrmætustu gjöf Guðs, brot gegn sjötta boðorðinu. Vítt og breitt um hnöttinn var verknaðurinn lengi vel álitinn glæpsamlegur — og er það raunar sumstaðar enn. Felo de se eða illvirki manns gegn sjálfum sér og gat sá sem lifði af mislukkaða sjálfsmorðstilraun verið saksóttur og dæmdur til refsingar.
Kaín tók þó ekki eigið líf, eins argur og hann var út í svitann og stritið, heldur líf yngri bróður síns. Báðir færðu þeir Guði fórnir — Kaín af ávexti jarðarinnar og Abel af frumburðum hjarðar sinnar. Af einhverjum ótilgreindum, tiktúrulegum ástæðum leit skaparinn með velþóknun til gjafa Abels, en af vanþóknun til gjafa Kaíns. Í þessum farsakenndu aðstæðum, sem urðu enn einkennilegri þegar Guð gaf til kynna að sá eldri hefði með fórnum sínum gerst sekur um ranglæti, ginnti Kaín bróður sinn út á akur og kom honum fyrir kattarnef.
Í nýlegri bók sinni, Sjö tegundir trúleysis, bendir breski heimspekingurinn John Gray á að, ólíkt fullyrðingum ófárra trúleysingja um hið gagnstæða, sé sagan af sköpun mannsins og fyrstu misgjörðum hans alls engin kenning úr öndverðu um uppruna hómó sapíens. Margir trúarinnar menn hafi í gegnum aldirnar boðað að Biblíutexta þurfi ekki að skilja bókstaflega gangi þeir í berhögg við þekkingu mannsins. Þeir hafa túlkað Fyrstu Mósebók sem „vefnað táknræns myndmáls og ímyndaðra atburða“; goðsögu til þess gerða að ná fram tiltekinni „merkingarheild sem erfitt er að láta í ljósi með öðrum hætti.“ Syndafallið er „goðsögn til þess ætluð að varpa upp mynd af margræðum áhrifum þekkingarinnar á frelsi mannsins,“ segir Gray og heldur áfram:
„Þekking er ekki frelsandi í eðli sínu og getur þvert á móti verið notuð í þágu ánauðar. Í því felst merking þess þegar Adam og Eva eru gerð útlæg úr aldingarðinum og dæmd til linnulauss erfiðis [...] Ólíkt vísindakenningum geta goðagnir hvorki verið sannar né ósannar. En goðsagnir geta í grundvallaratriðum verið í samræmi við mannlega reynslu. Fyrsta Mósebók er sannari túlkun á stöðugri baráttu mannsins en það sem finna má í grískri heimspeki, sem byggir á þeirri mýtu að þekking og gæska séu tengd órjúfanlegum böndum.“
Þessa sömu mýtu berst Kaín við í ljóði Byrons — að þekking leiði til góðrar og göfugrar breytni — líkt og hugarstríð hans fari fram á þröngum strætunum undir Akrópólis, innan um ferðalanga með selfístangir í leit að fangaklefa Sókratesar. Ekki á hrjóstrugum sléttunum syðst í Mesópótamíu þar sem Efrat og Tígris sameinast í Arabafljót og renna sem eitt út í Persaflóa. Hvers vegna átuð þið ekki einnig af lífsins tré? spyr hann foreldra sína undrandi. Snákurinn sagði jú satt: tréð reyndist viskuplanta og lífsins tré er einmitt það: lífsins tré. Þekking er góð og lífið ekki síður; hvernig getur þá hvort tveggja einnig verið af hinu illa? Þannig kveinkar hann sér — hinn aumi leir, eins og Lúsífer kallar manninn í auðmýkingarskyni — og furðar sig á framvindu absúrdleikhússins sem heldur honum föngnum.
„Já, hvernig má það vera,“ spyr Kaín á Facebook árið 2019. Ennþá dauðlegur, enn jafn forviða yfir fjarstæðukenndum örlögum sínum.„Hvernig má það vera að uppsöfnuð þekkingin, þykkur lögurinn úr safapressu aldanna, leysi mig ekki úr hlekkjum erfðasyndarinnar? Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta?“ Ritar hann hástöfum, lokar tölvunni og þambar nokkur djúsglös áður en hann heldur út til að bana bróður sínum.
Guð bölvar Kaín og bannfærir: „Þegar þú yrkir akurlendið skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.“ Hann húðflúrar á enni flækingsins sérstakt tákn sem verja á hann fyrir árásum og sendir hann þvínæst til landsins Nód austan við Eden. Nód þýðir „vergangur“ og orðasambandið „austan við Eden“ felur í sér brottfararstað þar sem sólin rís, eilífan upphafsreit, landgöngubrú út af flugstöð en enga flugvél á hinum endanum. Hjólför sem Kaín spólar í þar til Avan, systir hans, fæðir honum soninn Henok. Þá skapar hann sér loksins skjól til að vaxa og dafna og dreifa úr sér. Hann byggir borg, þá fyrstu í sögu mannkyns, þangað sem fylkingarbrjóst siðmenningarinnar á rætur sínar að rekja og reynir að gera að raunveruleika þann himneska munað sem foreldrar hans köstuðu á glæ.
Hvað er enda stórborgin ef ekki Paradísarheimt? Himnaríki undir festingunni, vöruhús allsnægtanna þar sem töframagn vinnunnar blandast evangelískri óþreyju eftir endalokum tímanna. Þegar hafrarnir verða loks skildir fá sauðunum; aldingarður mótaður í málm og gler, malbik og steypu. Þar sem maðurinn nærist og neytir, margfaldast, uppfyllir jörðina og gerir hana sér undirgefna. Bölvaður eins og Kaín en á sama tíma sótthreinsaður af strikamerki hans, þar sem frystikistan frelsar Adam um stund og uppþvottavélin Evu.
Þar sem þekkingin ferðast í skólpleiðslum manna á milli og ljósleiðarar ferja óæskilegan úrgang út í hafsauga þar sem hugvit og siðvit skapa samviskubit og lausnina við því um leið. Þar sem menn gera sér sólpalla úr skilningstrjám og sálhlífar úr fíkjulaufum; hengja sig ýmist í snöru lífsviskunnar eða hengja sig ekki — og iðrast hvorugs þegar í kirkjugarðinn er komið. Þar sem vísindin efla alla dáð og vinnan göfgar manninn, þar sem vélgengar orkusugur skapa glópagull með því að dæla sjóðheitu gosvatni ofan í berglögin utan við borgarmúranna. Þar sem stafrænir Kerúbar standa rafvængjaðir við hreinsunareldinn við hliðina á kæliskápnum og spyrja hinn fordæmda: má bjóða þér afritið? Áður en hann siglir af stað á ljótum fleka úr flísum lífsins trés eftir árfarvegunum austan við Eden, hrópandi: „Af hverju ég? Af hverju ég?“ Þar til hann sameinast sínum líkum og hverfur ofan í hyldýpið.