Í janúar flytur Gunnar Þorri Pétursson pistlaröð í Víðsjá sem hann kallar Varsjá. Ferðinni er heitið aftur í tímann og austur á bóginn. Í öðrum pistli er Gunnar Þorri með hugann við Arnór Hannibalsson og dularfulla þýðingu sem Arnór gerði á verki eftir heimspeking og huldumann í sovésku samfélagi.
Gunnar Þorri Pétursson skrifar:
Árið 1954 flugu tveir ernir í Austurveg. Árni Bergmann og Arnór Hannibalsson voru fyrstu stúdentarnir frá Vestur-Evrópu sem héldu til náms í Sovétríkjunum frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Örninn sem prýðir rússneska skjaldamerkið í dag er tvíhöfða og horfa hausarnir hvor í sína áttina — svipuð örlög biðu Árna og Arnórs: Þeir héldu til fyrirheitna landsins sem ungir hugsjónamenn en horfðust hvor um sig með ólíkum hætti í auga við veruleikann á bakvið drauminn, guðinn sem brást. Ég varð snemma handgenginn skrifum Árna um Rússland og rússneskar bókmenntir en Arnór var aftur á móti ráðgáta í mínum augum. Svo gerðist það miðja vegu á milli tvítugs og þrítugs að ég stóð dag einn í útláninu á Landsbókasafni Íslands og finn þá að augu lánþegans í röðinni fyrir aftan mig hvíla á mér, eða öllu heldur á bókunum sem ég hugðist fá lánaðar — allar um eða eftir Fjodor Dostojevskí. Þegar röðin var komin að honum lagði maðurinn bók um Varsjá á borðið ásamt safnskírteini sínu. Þetta var Arnór Hannibalsson, það var ekki um að villast.
Þá var ekki ýkja langt síðan hann hafði sent frá sér tvo doðranta: Annars vegar Moskvulínuna, þar sem rakin eru tengsl Kommúnistaflokks Íslands og Halldórs Laxness við Sovétríkin, hins vegar 600 síðna þýðingu á skáldsögu eftir Dostojevskí sem heitir Besy á frummálinu og Hinir óðu í meðförum Arnórs. Báðar voru þessar bækur umdeildar: Sú fyrrnefnda af augljósum ástæðum en hin síðari sakir þess að Ingibjörg Haraldsdóttir hafði þegar þýtt helstu verk Dostojevskís — það liðu ekki nema tvö ár þar til Mál og menning gaf út sömu skáldsögu en í þýðingu Ingibjargar nefndist hún Djöflarnir. „Það að tvær þýðingar á sömu skáldsögunni skyldu koma út nánast á sama tíma setti íslenska bókmenntaheiminn í nokkurn vanda,“ — skrifar Eiríkur Guðmundsson í bók sinni Undir himninum, — „vanda,“ — bætir hann við, — „sem leystur var með því að þegja yfir þýðingu Arnórs en hampa þýðingu Ingibjargar.“
Og höfðu ekki viðbrögð við söguskoðun Arnórs verið á sömu lund? Að loknu heimspekinámi í Sovétríkjunum hélt hann til framhaldsnáms í Varsjá og Kraká, sneri aftur til Íslands á sjöunda áratugnum og skrifaði tvær bækur (Valdið og þjóðin og Kommúnismi og vinstri hreyfing ) sem voru á undan sinni samtíð en féllu í grýttan jarðveg hjá íslenskri intelligentsíu. Að loknu doktorsprófi í heimspeki frá Edinborgar-háskóla stundaði Arnór síðan kennslu við Háskóla Íslands og var að nálgast eftirlaunaaldur þegar fundum okkar bar saman á Landsbókasafninu.
Mörgum árum síðar vaknaði ég upp með andfælum og minntist samræðunnar sem átti við heimspekinginn. Ég hafði verið með bók um Dostojevskí í smíðum þegar við hittumst við útlánsborðið og Arnór orkað á mig eins og persóna upp úr sögu eftir rússneska skáldajöfurinn. Það var nóg að hugsa til þessara fráneygu augna sem horfðu rannsakandi á allt sem fyrir þeim varð en voru að sama skapi mistruð, eflaust sýkt af gláku eða öðru meini, og minntu fyrir vikið á fullt tungl á skýjuðum morgunhimni. En svo höfðu árin liðið og bókin um Dostojevskí var orðin að steinbarni í maganum á mér. Og nú léku óðir djöflar lausum hala í höfðinu á mér. Nóttina sem ég vaknaði upp með andfælum varð mér hugsað til útlendingsins dularfulla sem birtist við Patríarka-tjarnir í upphafi Meistarans og Margarítu eftir Míkhaíl Búlgakov. Það var svo margt sem Arnór hafði sagði undir rós. Hvað hafði heimspekingurinn til dæmis átt við þegar hann kvaðst ætla að þýða bók eftir sovéskan fræðimann um áhrif þýska heimspekingsins Immanúels Kants á Dostojevskí? Þegar mér mistókst að skrifa um Dostojevskí hafði ég leitað huggunar í bók sem nefndist Vandinn í skáldskaparlist Dostojevskís eftir Míkhaíl Bakhtín. Bakhtín lýsir skáldsögum Dostojevskís sem margradda og sú greining kom heim og saman við upplifun mína á verkum hans. Ég var langt kominn með 100 síðna ritgerð um Bakhtín og rætur hans í heimspeki Kants — ég var meira að segja farinn að þýða bók Bakhtíns um Dostojevskí — þegar orð Arnórs rifjuðust upp fyrir mér. Vorum við að þýða sömu bókina? Hvað myndi hinn íslenski bókmenntaheimur segja ef Vandinn í skáldskaparlist Dostojevskís kæmi út í tveimur mismunandi þýðingum?
Það var of seint að grennslast fyrir hjá Arnóri. Hann lést í árslok 2012, þá 78 ára gamall. Arnór lét Landsbókasafninu í té mikið magn bóka og gagna en þar á bæ kannaðist enginn við útgefið eða óútgefið handrit að bók um Dostojevskí og Kant. Hver var þessi dularfulla bók og hvar var hún niður komin? Loks þegar sannleikurinn kom í ljós trúði ég vart eigin augum.
Skömmu fyrir andlátið hafði Arnór gefið út á eigin kostnað lítið kver eftir Jakob nokkurn Golosovker, huldumann og hugsuð sem enn er lítið þekktur — meira að segja innan rússnesks fræðasamfélags. Golosovker og Bakhtín voru samtímamenn og líkindin með þeim sláandi: Báðir voru handteknir á þriðja áratugnum en sluppu við hreinsanir Stalíns með ævintýralegum hætti, báðir skrifuðu bróðurpart ævinnar ýmist fyrir skúffuna eða eldinn. Fræg er sagan af því þegar Bakhtín átti tóbak en engan sígarettupappír í seinni heimsstyrjöldinni og á að hafa reykt smám saman upp eina eintakið af heilu fræðiriti sem hann hafði skrifað og var tilbúið til prentunar; þegar Þjóðverjar gáfust upp var aðeins eftir formáli og fyrsti kafli handritsins. Eins urðu mörg af verkum Golosovkers eldinum að bráð þegar vinur og málari sem hafði þau til vörslu fylltist skelfingu um húsleit yfirvalda; vinurinn fargaði meira að segja uppkastinu að einu skáldsögu Golosovkers en af því litla sem varðveittist af sögunni má ráða að hún fjallar um rithöfund í Moskvu á tímum ofsókna Stalíns sem skrifar bók um Jesús á laun. (Eins og heyra má eru örlög þessarar skáldsögu og efni hennar eitthvað sem Búlgakov hlýtur að hafa borist til eyrna þegar hann reit Meistarann og Margarítu mörgum árum síðar).
En hvað með kver Golosovkers um Dostojevskí og Kant sem Arnór átti að hafa þýtt? Það var sama við hvern ég talaði — bóksala, bókasafnsfræðinga, fræðimenn — enginn kannaðist við gripinn. Arnór hafði ekki hirt um skylduskil og því átti sjálft Landsbókasafnið ekki einu sinni eintak. Það var aðeins eitt safn á öllu landinu sem átti eintak af Dostojevskí og Kant eftir Jakob Golosovker og það var Bókasafnið á Ísafirði.
Svona er lífið. Til að komast að hinu sanna verður við að koma okkur upp úr skotgröfum kalda stríðsins og tengjast sköpunarkrafti Vestfjarða, yfirgefa háskólasvæðið og stika yfir Vatnsmýrina — fara með fyrstu vél til Ísafjarðar; þegar glittir í Snæfellsjökul erum við á réttri leið. „Ég hef helgað krafta mína rannsókn á skipan framtíðarþjóðfélagsins,“ — segir ein af sögupersónum Djöflanna, Hinna óðu eða ættum við einfaldlega nota það besta úr báðum þýðingum og kalla skáldsöguna Hina djöfulóðu, — „og niðurstaða mín er í beinni mótsögn við upphaflegu hugmyndina, sem ég gekk út frá. Ég gekk út frá takmarkalausu frelsi, en niðurstaðan er takmarkalaus harðstjórn.“ — Er þetta ekki spásögn um Sovétríkin og, ef út í það er farið, eðli allra allsherjarlausna og drauma um fyrirmyndarþjóðfélag?
Það er engin tilviljun að Arnór Hannibalsson þýddi þessa skáldsögu Dostojevskís á efri árum. Í aðra röndina kvaðst Arnór vera heimspekingur sem aðhylltist ekki neina heimspeki heldur legði aðeins stund á heimspeki; á hinn bóginn var hann afar afdráttarlaus, ef ekki pólemískur, í söguskoðun sinni. Arnór nær að mínu viti að sætta þessar grunnvallar mótsagnir í síðustu skrifum sínum og leiðin liggur í gegnum skáldskapinn — þýðinguna á Hinum óðu og síðar Dostojevskí og Kant eftir Golosovker þar sem er stunduð eins konar iðkun á mærum heimspeki og skáldskapar. Í eftirmála bókarinnar er Arnór meira að segja farinn að leggja drög að nýrri þekkingarfræði.
Það er heldur engin tilviljun að eina eintakið af síðustu bók hans hafi lengi vel aðeins verið til á Bókasafni Ísafjarðar (seinna fundust nokkur eintök á lager Bóksölu stúdenta og var þeim komið á helstu bókasöfn landsins). Arnór var Vestfirðingur í húð og hár og fyrstu heimspekilegu spurningarnar höfðu vaknað við fimm ára aldur þegar móðir hans veiktist af barnsfarasótt. Í viðtali segist Arnóri svo frá:
„Þegar hún var flutt á sjúkrabörum úr Alþýðuhúsinu… stóðu allir hágrátandi og ég skildi ekkert í þessu, af hverju fólk væri allt í einu að gráta þótt það væri aðeins verið að flytja móður mína eitthvað. Það töldu menn, að hún hefði þá ferðast alla leið að dauðans dyrum og hún var mjög lengi að ná sér. Við Ólafur bróðir minn — hann er ári yngri en ég — fórum á hverjum degi upp á sjúkrahús, það var nú ekki langt að fara, við áttum heima skammt frá sjúkrahúsinu — og þetta var eiginlega fyrsta raunverulega hugsun mín um dauðann. Mér var sagt að það hefði munað mjóu að við yrðum móðurleysingjar. Mér fannst þetta allt saman ákaflega eitthvað skrýtið, að mamma mín gæti bara allt í einu hætt að vera, bara farið eitthvað: hvert myndi hún þá fara, hvernig væri þetta allt saman? Mér var sagt að hún færi til himna og hún væri hjá Guði, en mér fannst nú eitthvað bogið við það, þótt ég væri ekki hár í loftinu: hvernig gæti hún flogið upp, hefði hún vængi eða hvað? En þetta varð til þess að ég fór að hugsa um lífið og dauðann, Guð, tímann og eilífðina og komst nú lítið áfram. Þessar spurningar fylgdu mér síðan alla tíð.“
Bókasafnið á Ísafirði er í dag til húsa í gamla sjúkrahúsi bæjarins. Sem þýðir að það síðasta sem liggur eftir heimspekinginn Arnór Hannibalsson á prenti kom hann áleiðis á staðinn þar sem móðir hans hafði legið nær dauða en líf og heimspekilegar spurningar um hinstu rök tilverunnar leituðu í fyrsta sinn á drenginn unga.