Bergur Þórisson tónlistarmaður hefur náð markverðum árangri, einungis 25 ára að aldri. Síðustu ár hefur hann túrað um heiminn með Björk Guðmundsdóttur og tónlist hans náð tugum milljóna spilana á streymisveitum.
Þótt Bergur Þórisson sé ekki nema 25 ára er tónlistarferill hans ævintýri líkastur. Frá 18 ára aldri hefur hann unnið með tónlistarmönnum á borð við Sigur Rós og Jóhann Jóhannsson. Að undanförnu hefur hann svo verið tónlistarstjóri á tónleikaferðalagi Bjarkar, Cornucopiu. Þá hefur hljómsveit Bergs, Hugar, fengið 30 milljónir spilana á Spotify og gerði á dögunum útgáfusamning við Sony.
„Það byrjaði eiginlega þannig að ég ætlaði kannski að læra á trommur eða rafmagnsgítar og fór með pabba á kynningu í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi. Pabba leist ekkert á þetta, að ég ætlaði að spila á eitthvað svona hávaðahljóðfæri,“ segir Bergur í viðtali við Menninguna um upphafið. „Hann benti mér á að kannski væri sniðugt að kíkja á hitt og þetta og þá hitti ég mann sem heitir Kári Húnfjörð, skólastjóri í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi, og hann vantaði svo agalega mikið básúnuleikara í lúðrasveitina hjá sér. Þannig að hann plataði mig í það, að læra á básúnu.“
Hætti við nám í Juilliard
Eftir langt og strangt básúnunám sótti Bergur um í Juilliard háskóla í New York og markmiðið var metnaðarfullt. „Ég var alltaf búinn að hafa þetta markmið, að komast inn í Juilliard og verða besti básúnuleikari í heiminum, sem er náttúrulega að einhverju leyti frekar barnalegt markmið, en ég var líka barn þannig að það er kannski allt í lagi.“
Þegar innritunardagurinn nálgaðist og staðfestingargjaldið var greitt runnu á hann tvær grímur. „Þá allt í einu kviknar einhver pera í hausnum á mér sem segir bara „langar mig að vera bara básúnuleikari?“ Af því að þetta er náttúrulega rosalega dýrt nám, þó mér hafi boðist einhverjir styrkir og alls konar dót. Þannig að ég sá fram á að ef ég ætlaði að gera þetta væri ég ekki að fara að gera mikið annað en að vera bara básúnuleikari og reyna að borga upp þetta nám.“ Hann hafi því áttað sig á því að hann langaði ekki nógu mikið til að vera básúnuleikari.
Bergur ákvað því að hætta við á síðustu stundu og framtíðin var óviss. Síðar kynntist hann Ólafi Arnalds tónlistarmanni og þeir hófu að vinna saman að gerð tónlistar fyrir bresku sjónvarpsþættina Broadchurch. „Þetta átti að vera bara svona lítil sería. Svo einhvern veginn gerðist það að hún varð risastór og við fengum BAFTA-verðlaun og ég fer og ferðast með honum út um allt og spila músík fyrir alls konar fólk.“
Bergur segir að það hafi verið ótrúleg lífsreynsla. „Þegar ég byrja í þessu er ég bara eitthvað rétt rúmlega 18 ára og er að ferðast út um allt og spila músík, sem var náttúrulega alltaf draumurinn.“
„Kýlum á það“
Bergur var að vinna að hinum ýmsu verkefnum þegar honum bauðst að vinna með Björk. „Einn daginn þá bara hringir síminn og ég er spurður hvort ég sé laus á morgun, því það vanti hljóðmann til að vinna með Björk, og ég segi bara „allt í lagi, kýlum á það.““
Til að byrja með var starfstitill hans upptökustjóri, sem Bergur segir að hafi einkum falist í því taka upp tónlistina og miðla hugmyndum Bjarkar á aðgengilegan hátt. „Svo þróaðist öll þessi vinna út í að hún bað mig að koma með sér á túr og þá biður hún mig að vera tónlistarstjóri sem snýst meira um að taka hennar hugmyndir og koma þeim í einhverja útfærslu á tónleikum sem virkar og stjórna æfingum. Í rauninni bara að passa að allt tónlistarlegs eðlis á tónleikunum sé í lagi. Við vorum allt síðasta sumar að túra um Evrópu og núna erum við búin að vera í New York í mánuð og Mexíkó í mánuð og svo heldur þetta bara áfram og er ótrúlega skemmtilegt.“
Semur tónlist með æskuvini
Hugar, hljómsveit Bergs og Péturs Jónssonar æskuvinar hans, hefur á skömmum tíma náð eyrum rúmlega 30 milljóna hlustenda á streymisveitum og komust þeir á plötusamning hjá Sony í fyrra. Þeir höfðu spilað saman við mörg tækifæri þegar tækifærið til að vinna að tónlist saman gafst loks.
„Þegar ég er svona 15 eða 16 ára þá gerist það að ég er allt í einu kominn með lyklavöld að þessu stúdíói sem ég hafði hjálpað til við að setja upp, að eigandinn fer á tónleikaferðalag og ég bara sit uppi með stúdíó. Ég hringi í Pétur og segi „nennirðu plís að koma, við verðum að gera eitthvað núna, nú kýlum við á þetta og gerum einhverja músík.““
Bergur segir að samningurinn við Sony í Bandaríkjunum sé mikill stökkpallur. Önnur plata þeirra, Varða, kom út í ágúst á þessu ári.