Saga Helga Tómassonar, ballettdansara og stjórnanda, er ævintýri líkust. Fjögurra ára strákur fer á danssýningu í Vestmannaeyjum, kemst undir handleiðslu dansks ballettmeistara, fer þaðan til Danmerkur og upp á hátind listgreinarinnar. Þorvaldur Kristinsson hefur skráð æviminningar Helga og gefið út á bók.

Þorvaldur Kristinsson rithöfundur segir í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni að svo virðist sem Helgi Tómasson hafi alltaf verið rétti maðurinn á réttum stað á réttum tíma, allt frá því dansáhuginn skaut rótum hjá honum fjögurra ára gömlum í Vestmannaeyjum. „Þegar hann er tíu ára gamall er Ballettskóli Þjóðleikhússins stofnaður og hann fær þar inngöngu, eini drengurinn á fyrsta árinu innan um nærri 200 stúlkur. Það er enn önnur tilviljun í lífi hans að kallaður skuli vera til mjög fær ballettmeistari frá Danmörku til að kenna Íslendingum að dansa,“ segir Þorvaldur, en Helgi hóf dansnám í Kaupmannahöfn fimmtán ára gamall.

Síðar tók Helgi þátt í fyrstu alþjóðlegu ballettkeppninni í Moskvu 1969, þar sem hann fékk silfurverðlaun en Mikhail Baryshnikov fékk gullið. Helgi komst svo í fremstu röð ballettdansara heimsins. Hann tók við stjórn San Francisco ballettsins 1985 og undir handleiðslu hans öðlaðist dansflokkurinn viðurkenningu sem einn sá besti á alþjóðavísu.

Þorvaldur Kristinsson segir að það hafi verið sitt mikilvægasta verkefni að kalla fram manneskjuna að baki þessu ævintýralega lífshlaupi og komast að því hvernig Helgi höndlaði þetta líf.

„Ég las óteljandi viðtöl við Helga, bæði íslensk og erlend,“ segir Þorvaldur. „Ég áttaði mig á því að fólk var alltaf að tala við ballettdansarann og stjórnanda ballettflokks. Ég spurði Helga að þessu á okkar fyrsta fundi, hvers vegna ert þú sjálfur í skugganum, maðurinn að baki? Hann sagði „það hefur enginn spurt mig. Ég hefði svarað heiðarlega ef einhver hefði haft áhuga á persónu minni.““

„Hann hefur í rauninni verið þátttakandi í danssögu heimsins, einkum og sér í lagi klassískum ballett í fimmtíu ár.“

Þorvaldur segir að Helgi sé mikill leiðtogi að upplagi. „Eins og gáfaðir leiðtogar eru oft, þá talar hann við nærstadda eins og jafningja. Hann talar hvorki upp né niður til annarra.“

Helgi hefur lengst af búið fjarri Íslandi, en hefur alltaf sýnt landinu ræktarsemi. Þorvaldur segir að tilfinningar hans til Íslands séu mjög sterkar. „Öðrum þræði saknar hann Íslands stöðugt. Hann segist aldrei losna við þennan söknuð.“

Hann segir að Íslendingar mættu taka ýmislegt sér til fyrirmyndar í fari Helga Tómassonar. „Ef eitthvað einkennir persónu hans þá er það viljinn til að strita fyrir sínu. Hann er ótrúlega úthaldsgóður og trúir á gildi þess að strita og puða.“

Egill Helgason ræddi við Þorvald Kristinsson í Kiljunni.