Jóhanna Sigurjónsdóttir, lögmaður tveggja ungra kvenna sem kært hafa tvo menn fyrir kynferðisbrot, óttast að ítarleg umfjöllun í fjölmiðlum um mál þeirra kunni að hafa spillt fyrir málinu og rannsókn þess. Hún ætlar að kæra Vilhjálm H. Vilhjálmsson lögmann til lögreglu fyrir að leka trúnaðarupplýsingum.
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er vísað til skýrslu annarrar konunnar hjá lögreglu. Jóhanna segir að opinber umfjöllun um kynferðisbrot sé brotaþolum þungbær. Í þessu máli hafi verið ítarlegar atvikalýsingar, hvort sem þær eru réttar eða rangar. Slíkar frásagnir kunni að hafa áhrif á vitni, sem eiga eftir að gefa skýrslu hjá lögreglu, og kunni þar með að spilla fyrir rannsókninni.
Kynferðisbrotamál séu alltaf flutt í lokuðu þinghaldi fyrir dómi og fjölmiðlar og almennningur hafi engan aðgang að því. Hagsmunir almennings felist fyrst og fremst í því að mál fái eðlilegan framgang innan réttarkerfisins og séu til lykta leidd fyrir dómstólum. „Fari svo að þessi umfjöllun Fréttablaðsins hafi skaðað málið, eða kunni að skaða málið, þá þurfa fjölmiðlar auðvitað að draga lærdóm af því,“ segir Jóhanna.
Hún segist ekki minnast þess að fjölmiðill hafi áður haft afrit af skýrslu brotaþola meðan mál sé enn til rannsóknar. Hún spyr hvort brotaþoli, sem kærir kynferðisbrot, megi búast við að verjandi sakbornings miðli upplýsingum úr skýrslunni til fjölmiðla.
Þarna vísar hún til Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, verjanda í málinu. „Að mínu mati þá leikur enginn vafi á því að Vilhjálmur, kollegi minn, hefur brotið gegn sínum starfsskyldum, og hann hefur meðal annars þá, að mínu mati, brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, og hann hefur brotið gegn ákvæðum laga um meðferð sakamála, auk þess að hafa brotið gegn lögum um lögmenn, og auðvitað siðareglum lögmanna.“