Í leikritinu BÆNG! leikur samstilltur leikhópur sér að klisjum og deilir á öfgahægri öfl, pópúlisma og afstöðulaust frjálslyndi, að mati gagnrýnandi Menningarinnar.
Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:
Verkið Bæng e. þýska leikskáldið Marius von Mayenburg tekur á vaxandi uppgangi popúlískra afla í samtímanum og rýnir um leið í þær samfélagslegu aðstæður sem ýta undir þennan uppgang. Það eru fáir samfélagshópar sem sleppa undan skarpri ádeilunni og ekkert er heilagt, hvort sem um ræðir kapítalismi, góða fólkið eða fórnarlömb heimilisofbeldis. Í sýningunni er unnið á áhugaverðan hátt með mörk og samband sannleika, lyga og útúrsnúninga bæði út frá frumforsendum sviðslistaformsins og einnig birtingarmyndum þessarar hugtaka í samfélagsumræðu samtímans.
Sagan sem sögð er í verkinu er tiltölega einföld, það er ævisaga Hrólfs Bæng, leikinn af Birni Thors, sögð frá sjónarhóli hans sjálfs þar sem áhersla er lögð á þau augnablik sem endurspelga einna best ótrúlega snilligáfu hans, að hans mati. Persóna Hrólfs er eins konar samansuða af helstu úrtölumönnum frjálslynds lýðræðis og popúistum samtímans, allt frá Trump til Jordan Peterson. Megnið af frásögninni gerist þó þegar Hrólfur er fimm ára sem á tvímælalaust skírskota í barnalega afstöðu popúlista stjónmálanna um þessar mundir. Hinir frjálslyndu og víðsýnu foreldrar Hrólfs, leikin af Brynhildi Guðjónsdóttur og Hirti Jóhanni Jónssyni, koma eðlilega mikið við sögu en þau líta einnig á sinn heittelskaða son sem einskæran snilling og undrabarn en eru í raun lítið annað en leiksoppar Hrólfs, öfgakenndra lífsskoðanna hans og lífssýnar.
Inn í söguna blandast aðrar persónur eins og fæðingalæknir, sundurbarin nágranakona og barnapía, leiknar af Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og fiðlukennari Hrólfs, ofbeldisfullur nágrani og hjúkrunakona, leikin af Halldóri Gylfasyni. Flest þeirra verða skotspónn Hrófls og eru dregin sundur og saman í grófu gríni, almennu andlegu ofbeldi og niðurlægingu. Ekkert augnblik þessarar ótrúlegu ævisögu má fara forgörðum og til að tryggja það er kvikmyndatökumaður ávallt til staðar, leikinn af Davíð Þór Katrínarsyni, og er allt tekið upp af í formi raunveruleikasjónvarpsþáttar á sjónvarpstöðinni BængTV.
Vélbyssa og fiðla
Hrólfur Bæng er vissulega miðpunktur athyglinnar, það er hann sem keyrir frásögnina áfram og stýrir atburðarásinni, bæði beint og óbeint. Aðstæður hans birta okkur þversagnir hins frjálslynda lísfsmunsturs og það er í því sem helsta ádeila verksins kemur fram. Foreldrar hans keppast við að ítreka einstaka hæfileika hans og yfirburði en reyna um leið að virðast víðsýn og pólitískt rétthugsandi útávið. Móðir hans rekur opið heimilishald þar sem konum sem beittar eru heimilisofbeldi er veitt öruggt skjól en þær eru reyndar geymdar niðrí kjallara og ómögulegt að segja til um hversu margar konur hírast þar. Þegar Hrólfur fer að gera athugasemdir við þessa tilhögun og kaupir sér vélbyssu svona bara til öryggis, til að vernda heimilið, virðast prinsipp foreldranna víkja fyrir frelsi Hrólfs og möguleikum hans til að þroskast á eigin spýtur. Sömuleiðis er það fiðlukennaranum að kenna að Hrólfur nái ekki að verða tónlistarséníið sem augljóslega býr innra með honum að mati foreldranna en ekki sú staðreynd að hann er fullkomlega laglaus nemandi. Að sama skapi kynferðisleg girnd föður Hrólfs sem beinist að barnapíunni ekki honum sjálfum að kenna heldur ómótstæðiegum kynþokka hennar og fasi.
Flestir þeirra sem standa utan þessarar fjöslkyldu bera strax kennsl á þá persónu sem Hrólfur hefur raunverulega að geyma og reyna hvað þau geta að koma foreldum, heiminum og áhorfendum í skilning um að aðeins vond og illa innrætt manneskja kyrkir systur sína í móðurkviði, lemur auga úr fiðlukennara, káfar á barnapíum og hæðist að þolanda grófs heimilisofbeldis á meðan hann hampar ofbeldismanninum.
Tortryggni og framandgerving
Framvinda verksins er ærslafull og húmorinn grófur og nánast engin hlið hins frjálslynda vestræna samfélags sem sleppur við skothríðina. Vaxandi popúlismi, öfgahægristefna og tortryggni er augljóslega í forgunni ádeilu verksins en þó er skotið einna fastast á frjálslyndi vestrænna samfélaga sem gerir það að verkum að manneskjur eins og Trump komast til valda þrátt fyrir að gera lítið annað en að ala á tortryggni og ljúgja út í hið óendanlega. Í sýningunni er leikið einstaklega vel með þetta í tengslum við sviðslistaformið og frumforsendu þess, þ.e. lýgina. Áhorfendur eru ávarpaðir frá fyrstu mínútu og dregnir inn í framvinduna og nánast gerðir samsekir atburðarásinni. Að sama skapi afhjúpar og ávarpar Hrólfur Bæng stöðugt sviðsetninguna sem er i gangi, t.d. að fæðingarlæknirinn sé ekki alvöru fæðingarleiknir heldur bara þykijustu læknir og sé í raun Katrín Halldóra að leika lækni. Eins trúir faðir hans ekki raunverulega á frjálslynd prinsipp sín heldur er þetta bara Hjörtur Jóhann að leika og það síðast sem hann lék var Ríkharður þriðji sem var ekkert sérstaklega víðsýnn ef út í það er farið. Þannig tekst Hrólfi að torgtryggja allt og alla og sá fræjum efa og ringulreiðar í frjóan svörð frjálshyggjunnar.
Leikstílinn er beintengdur tengdur þessari nálgun og fara leikarar ekki beint á dýptina í sálarangist persónanna, enda engin þörf á því, heldur leyfa sér að birta okkur ímynd þeirra og leika sér að klisjum. Þannig verður heimurinn á sviðinu framandi, þ.e. ekki er verið að draga okkur inn í raunsæjan og einangraðan heim heldur ríkir alltaf skýr meðvitund um að við séum í leikhúsi og þannig eru áhorfendur krafnir um afstöðu. Í leikritinu sjálfu birtist einnig skýr leikur að klisjum og endurtekningum og verður texti þess að köflum absúrd eða súrrealískur og því hentar ofangreind nálgun mjög vel. Leikhópurinn er að sama skapi mjög samstilltur í þessari nálgun, eiga auðvelt með hana og ná vel til áhorfenda. Þeir stökkva fimlega úr einni persónu í aðra og frá senu í senu og ná alltaf að teyma áhorfendur með á asnaeyrunum.
Tilgangsleysi kerfisins
Pólitísk ádeila verksins er frá upphafi mjög skýr en sjónum er beint að uppgangi öfgahægri afla í krafti popúlisma og þeirra samfélagslegu aðstæðna sem hafa ýta undir þessa þróun. Í tilfelli Bæng felst kjarnin þessara aðstæðna í afstöðulausu frjálslyndi og frjálshyggju síðustu áratuga. Þó svo að leikritið spretti upp úr þýsku samhengi þar sem öfgahægri flokkurinn AfD er orðið áberandi afl í stjónmálum er þessi þróun ekki bundin við það samhengi. Samskonar öfl eru að ryðja sér til rúms um allan heim með popúlisma og tortryggni að vopni, t.d hér heima í Íslandi, í Bandaríkjunum, Svíðþjóð, Danmörku, Finnlandi, Ítalíu, Bretlandi, Hollandi, Ungverjalandi, Tyrkland, Spán og svo mætti lengi telja. Í Bæng er dæmið sett upp á skýran hátt; þó svo að þessi öfl virðast temja sér rethorík fimm ára krakka þá er alls ekkert krúttlegt við þau, þvert á móti eru þau stórhættuleg. Ennfremur er ljóst að það sem ber ábyrgð á því að leyfa þessum skríl að vaða uppi er hið frjálslynda hugmyndafræðikerfi.
Í nafni frelsis, einstaklingsdýrkunar og markaðshyggju, verður þetta kerfi að opna á öfgafullar skoðanir þrátt fyrir að það sé fyllilega ljóst að í besta falli ala þessar skoðanir á sundrungu og tortryggni en í versta falli eru þær ómannúðlegar og fasískar. Þessi gagnrýni á ríkjandi samfélagskerfi kemur einna best fram í einræðu Hrólfs Bæng strax eftir hlé þar sem hann útskýrir fyrir áhorfendum hvernig þetta samfélag virkar, hvernig við viljum ofbeldið/árásina/stríðið gerast fyrir framan augum okkar, í beinni útsendingu, til þess eins að þessi fullkomlega tilgangslaus tilvist okkar innan þessa kerfis fái skyndilega einhverja merkingu. Í þeirri senu kristallast kjarni verksins sem snýr að því tilgangleysi sem þetta samfélagskerfi virðist nærast á og vegna þessa tilgangsleysis þráir fólk að bara eitthvað gerist, að einhver taki afstöðu, að einhver gefi merkingarlausu lífi þeirra tilgang, að kveikt verði í þinghúsinu, að hið 70 ára friðartímabil Evrópu taki enda með einhvers konar afstöðu.
Hættulegra utan Íslands
Þó svo að ádeilan sé skörp, skýr og réttmæt og poti í hressilega í síðusár vestræns frjálslyndis þá má hins vegar má einnig velta því fyrir sér hvað sé í raun og veru í húfi í sýningunni, hvar hin sterka og áríðandi ádeila ýti raunverulega við áhorfendunum, hvenær hættir sýningin að vera fyndin en skörp ádeila og verður í raun og veru hættuleg og krefur fólk um afstöðu. Þó svo að popúlismi er vaxandi vandamál um allan vestrænan heim þá er stigsmunur á samhengi. Leikritið sprettur sem fyrr segir upp úr þýsku samhengi þar sem hugmyndin um 70 ára frið hefur allt aðra menningarlega merkingu heldur er hér á landi þar sem við höfum aldrei þurft að fást við traumatískar afleiðingar stríðs og ófriðar eins og t.d. þjóðir Evrópu.
Við þekkjum stríð aðeins sem fjarlægt tákn sem við skiljum en höfum ekki reynslu af. Sú ólga sem á sér stað í Þýskalandi núna er beintengd líkamlegri og sálrænni upplifum þjóðar af stríði og því mun líklega að sárið sem Marius von Mayenburg potar í sé stærra og dýpra en við hér á Íslandi getum skilið fyllilega. Ádeilan á frjálslyndið verður því mun hættulegri í því samhengi. Að þessu leyti missir ádeila verksins aðeins mátt sinn undir lokin í uppsetningu Borgarleikhússins, þ.e. þær aðstæður sem styllt er upp í lok verksins eru vissulega skiljanlegar en um leið framandi, við sjáum þær sem tákn en ekki sem raunverulega hættu. Í okkar samhengi eru við ennþá að hlæja að fimm ára krakkanum í æðiskastinu en skynjum kannski ekki raunverulega hættuna.
Hvað sem því líður er sýningin Bæng kraftmikil og kómísk ádeila á hugmyndakerfi samfélags okkar og popúlísk afsprengi þess og áríðandi innlegg í samfélagsumræðu samtímans.