Við verðum að vera í stakk búin til að takast á við rútuslys og flugóhöpp alls staðar á landinu, segir fráfarandi formaður Landsbjargar. Mikilvægt sé að útbúa viðbragðsáætlun og æfa hana.

Verkefni og fjöldi þeirra breyst mikið

Aðstæður björgunarsveitarfólks hafa víða breyst mikið með tilkomu aukins ferðamannastraums allt árið. Þær eru einnig mismunandi eftir landsvæðum, eins og í Öræfum og á Kirkjubæjarklaustri þar sem mjög fámennar sveitir sinna erfiðum útköllum þar sem er langt í næstu bjargir. Smári Sigurðsson, fráfarandi formaður Landsbjargar var gestur í Samfélaginu á Rás 1 í dag en hann segir mikilvægt að lögregluumdæmi landsins undirbúi sig vel vegna náttúruvár og hópslysa. „Að gera viðbragðsáætlun og æfa hana er lykillinn að því að okkur vegni vel þegar við fáum fangið fullt af svona verkefninum,“ segir Smári. Þannig megi búa sig undir það versta, náttúruvá og stór slys. Það hafi verið gert vel á Suðurlandi og þar hafi verkefnin vissulega verið mörg og því mikil reynsla. „En ég vildi að það væri á fleiri stöðum á landinu, alls staðar á landinu, tekið jafn skörulega á verkefninu og þar,“ segir Smári.

Hefur áhyggjur af stöðum fjarri björgum

Smári hefur áhyggjur af stöðum þar sem er langt í bjargir og tekur Ísafjarðardjúp sem dæmi og veltir fyrir sér hversu undirbúnir heimamenn séu á hverjum stað. Á Vestfjörðum hafa aðeins verið haldnar samræmdar hópslysaæfingar í tengslum við flugvellina á Bíldudal, Ísafirði og Gjögri undanfarin ár. Æft er á hverjum stað á fjögurra ára fresti og því er hópslysaæfing nær árlega. Bryndís Jónsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Vestfjörðum í almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps, segir að komi til hópslyss annars staðar en við flugvellina sé gert ráð fyrir að unnið verði eftir viðbragðsáætluninni fyrir flugvellina - enda að mestu sama viðbragðslið sem komi þar að.

Telur æfingar ráðast af áhuga og getu

Smári bendir á að í sumum lögregluumdæmum séu ekki flugvellir þar sem sé áætlunarflug og því ekki skylda að æfa viðbrögð við hópslysum á þeim eins og Isavia beri að gera. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafi ekki verið gert kleift, hvort sem það sé vegna fjármuna eða forgangsröðunar, að sinna almannavarnahlutverki sínu um allt land. Smári telur samræmdar hópslysaæfingar ráðast af áhuga og getu lögreglustjóra í umdæmunum. „Það er alveg ljóst að það má kveikja á fleiri perum og setja fleiri hendur í verkefnin til að undirbúa okkur sem þjóð undir það versta hverju sinni eins og lög um almannavarnir kveða á um,“ segir Smári. „Rútuslysin geta gerst hvar sem er - eða flugóhöpp og þess vegna þurfum við að vera í stakk búin alls staðar á landinu,“ segir Smári. Hann fagnar því að ríkislögreglustjóri hyggist endurskoða almannavarnir í landinu.