Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, segir það ósanngjarnt að refsa fólki um alla framtíð fyrir að hafa fiktað með fíkniefni. Hún er fyrsti flutningsmaður frumvarps um afglæpavæðingu neysluskammta. Þingmaður Miðflokksins telur að betra væri að stytta tímann sem fyrsta brot væri á sakaskrá.
Þverpólitísk samstaða hafi verið um málið í velferðarnefnd á síðasta þingi. Nú séu þingmenn úr fimm stjórnmálaflokkum á þingi meðflutningsmenn að frumvarpinu, allra flokka nema Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks.
Frumvarpið var á meðal þess sem rætt var í Silfrinu í dag. Aðrir gestir voru Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. Hér má horfa á allan þáttinn.
Heilbrigðisvandamál en ekki glæpur
Halldóra segir að frumvarpið feli í sér afglæpavæðingu vörslu neysluskammta allra vímuefna sem falla undir ávana- og fíkniefnalöggjöfina. „Hugmyndin þar að baki er hreinlega sú að aðstoða þá sem eiga við fíknivanda að stríða. Að þetta eigi ekki að vera lögreglumál, það á ekki að refsa þeim sem eiga við fíknivanda að stríða, heldur er þetta heilbrigðisvandamál.“ Fólk sem eigi við fíknivanda að stríða þurfi aðstoð en ekki refsingu.
Páll segir að maður með neysluskammt á sér geti allt eins ætlað að selja hann. Aðstoða eigi þá sem kljáist við fíknivanda, og þurfa hjálp í heilbrigðiskerfinu, með öðrum hætti en að lögleiða neysluskammta. „Vegna þess að þá ertu líka í raunveruleikanum að lögleiða sölu á neysluskammtinum. Ef meiningin er að hjálpa fólkinu, í guðanna bænum hjálpiði því öðruvísi en svona.“
„Engin rosaleg glæpavæðing“
Þorsteinn segir að síðast þegar hann gáði hafi sektin fyrir vörslu á neysluskammti af kannabis verið sambærileg og fyrir að vera tekinn á 105 kílómetra hraða á Kjalarnesi. „Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það engin rosaleg glæpavæðing út af fyrir sig.“
Það sem vaki fyrir stuðningsmönnum frumvarpsins sé líklega sá þáttur sem snúi að sakaskrá. „Og það má alveg hugsa sér það að við skilorðsbindum sakaskrárbindinguna við fyrsta brot eða eitthvað slíkt. En við eigum ekki og megum ekki opna fyrir það að það sé almennt viðurkennt að menn megi vera með skammta á sér af ólöglegum efnum, því eins og Páll segir, og ég tek undir með honum, þeir geta hæglega verið söluskammtar.“
Athugasemdir lögreglu við neyslurýmisfrumvarp
Halldóra benti þá á að lögreglan hafi gert þær athugasemdir við frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými, að engin lagastoð væri fyrir því. Verið væri að búa til svæði þar sem fólk getur neytt fíkniefna án þess að lögreglan stöðvi fólkið og leiti á því. „Það er ómögulegt að segja lögreglunni að sinna ekki sínum skyldum eða líta í hina áttina. Þá frekar tökum við þetta alla leið og breytum lögunum þannig að þeir þurfi ekki að gera það og það verði lagastoð fyrir þessum rýmum.“
Guðmundur tók undir að þetta væri heilbrigðismál og að ekki ætti að setja fólk í tugthús fyrir það að vera með fíknivanda, sem sé sjúkdómur. Hlusta eigi á heilbrigðisstarfsfólk í þessum málum.
Það sé ekki þannig að allir noti fíkniefni. „Raunveruleikinn er líka sá að þegar þetta er ólöglegt, þá er ungt fólk til sem hugsar sem svo: þetta er ólöglegt, ég ætla ekki að taka þetta.“
Halldóra segir að frumvarpið breyti því ekki að fíkniefni verði ólögleg áfram. Það sé ósanngjarnt að refsa fólki um alla framtíð fyrir að hafa verið að fikta með fíkniefni; að það sé á sakaskrá, eigi erfitt með að fá vinnu og ferðast. „Ef okkur er alvara með skaðaminnkun þá verðum við að horfa til þess hvernig við getum skapað lagaumgjörð sem gerir það að verkum að fólk geti verið öruggt með þessa hluti.
Geðrof af kannabiskreykingum algengt
Þorsteinn tók undir með Guðmundi að það eigi að hlusta á heilbrigðisstarfsfólk. „Maður hefur heyrt frá geðlæknum á geðdeild Landspítalans að hér sé geðrof meðal ungmenna af kannabisreykingum alveg gríðarlega algengt.“
Það sé væntanlega vegna aukinnar ræktunar hér á landi á kannabis, sem hafi hærra hlutfall af Tetrahýdrókannabínól eða THC, en það er virkasta efni kannabisplöntunnar og það sem framkallar vímu við reykingar.
„Það þýðir það að börnin okkar og unglingarnir eru útsettari fyrir því að fara í fara í geðrof eða geðklofa. Og mér finnst að við eigum að beita öllum aðferðum til að koma í veg fyrir þetta. Ég held að við gerum það ekki með því að normalisera það að menn séu á ferli með neysluskammta án þess að það séu höfð afskipti af þeim.“