Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, segir að þær breytingar sem dómsmálaráðherra gerði á reglugerð um Útlendingastofnun komi ekki í veg fyrir að stjórnvöld geti sent börn til Grikklands. Aðstæður þar séu slæmar fyrir fólk á flótta og það breyti engu hvort fólk eigi eftir að sækja um vernd eða hafi þegar fengið vernd.

„Flóttafólk er á götunni, heilbrigðiskerfið ræður ekki við ástandið, í rauninni stjórnsýslan er í molum og það eru auknir fordómar og andúð meðal almennings í Grikklandi.“ 

Kristín segir að venjulega fái fólk í hælismeðferð húsnæði og einhverja smávegis aðstoð en ástandið sé slæmt. „Það var hætt að senda fólk til Grikklands til baka árið 2010 og ástandið hefur ekkert batnað á þessum níu árum.“ 

Hlúa verði áfram að börnum og barnafjölskyldum

Kristín segir alltaf gott þegar auknir fjármunir eru settir í málaflokkinn eins og nú standi til að gera. „Það má ekki verða til þess að hraðinn aukist það mikið að málsmeðferðin verði illa unnin og málin verði illa unnin. Það verður að hlúa áfram vel að börnum og barnafjölskyldum og taka tillit til þeirra í allri þessari vinnu. Við fögnum því að það séu settir meiri fjármunir í málaflokkinn og ekki síst í að styðja við þá sem eru að bíða. Það þarf að virkja það fólk þannig að það fari ekki verra frá Íslandi en það kom.“ 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum að það væri stefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs byggðist á því að hafa mannúð að leiðarljósi í móttöku innflytjenda og flóttafólks. Mannúð sé einnig leiðarljós innflytjendalaganna. „Ef við teljum að það sé ekki að ganga sem skyldi, þá er mikilvægt að taka það til skoðunar og það er það sem við erum að gera.“Í dag gerði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra breytingar á reglugerð um útlendinga. Útlendingastofnun er með breytingunni veitt heimild til þess að taka til efnislegrar meðferðar umsókn barns sem hlotið hefur hefur vernd í öðru ríki ef meira en 10 mánuðir eru frá því að umsókn barst hérlendum stjórnvöldum, ef tafir á afgreiðslu eru ekki á ábyrgð umsækjanda. Stofnunin hefur samkvæmt reglugerðinni heimild til þessa að eigin frumkvæði eða á grundvelli sérstakrar beiðni. 

Kristín segir þetta allt skref í rétta átt og að Rauði krossinn eigi fund með stjórnvöldum eftir helgi. „En eftir stendur að þessar breytingar sem eru gerðar núna á þessari reglugerð koma ekki í veg fyrir að stjórnvöld sendi börn í afar slæmar aðstæður á Grikklandi. Við vonum það besta en þetta er allt skref í rétta átt og við fögnum auðvitað áhuga stjórnvalda á því að gera betur.“

Bogi Ágústsson ræddi við Kristínu Hjálmtýsdóttur í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum. Hægt er að horfa á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.