Íbúar í Túnis gengu til forsetakosninga í dag. Þetta er í annað sinn sem frjálsar lýðræðislegar forsetakosningar fara fram í landinu. Kosningaþátttaka var dræm, aðeins um 35%.

Kjörstaðir voru opnaðir snemma í morgun og lokað klukkan 17 í dag á íslenskum tíma. Kosningþátttaka var afar dræm, rétt um 35%. Yfir sjö milljónir eru á kjörskrá og val stóð á milli tuttugu og fjögurra frambjóðenda. Síðustu helgi voru kappræður frambjóðenda - í fyrsta sinn sem það er gert þar í landi. Enginn framjóðenda þykir augljós sigurvegari. Ef enginn þeirra fær hreinan meirihluta atkvæða fer fram önnur umferð þar sem tveir efstu etja kappi. Niðurstöður liggja líklega ekki fyrir fyrr en á þriðjudag. 

Enn að fóta sig í auknu lýðræði

Helstu málin fyrir þessar kosningar eru efnahags- og öryggismál. Atvinnuleysi mælist um fimmtán prósent og framfærslukostnaður hefur hækkað um 30 prósent síðustu þrjú ár. Þá þarf að stemma stigu við öfgahópum í landinu sem virðist vera að fjölga. Það er því vandasamt verk sem bíður þess er tekur við embættinu. Þjóðin er enn að fikra sig inn á braut lýðræðis eftir arabíska vorið sem hófst í Túnis í lok árs 2010. Ákall um lýðræði og aukið frelsi breiddist svo út til fleiri ríkja á svæðinu en segja má að Túnis sé eina landið þar sem hafa orðið raunverulegar breytingar í átt að lýðræði.