Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda segir að viðbrögð við aðgerðum Hatara í Ísrael hafi verið sterk vegna þess að Ísraelar vilji ekki vekja athygli fólks, sérstaklega ekki ísraelsks almennings á málefnum Palestínu. Aðgerðir sveitarinnar séu fyrst og fremst táknrænar. Ástandið á Vesturbakkanum og Gaza sé hörmulegt og hafi verið slæmt í 20 ár.
Rafmagnað andrúmsloft í græna herberginu
Framlag Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva vakti athygli víða og ekki síst fór um fólk þegar Hatarahópurinn lyfti upp klútum í palestínsku fánalitunum þegar hann birtist í mynd við stigagjöfina í lokakeppninni. Svona lýsir Matthías Tryggvi Haraldsson söngvari Hatara viðbrögðunum:
„Það varð þyngra hljóð í græna herberginu strax og magnað að finna viðbrögðin strax eftir. Ísraelsmenn, aðrir keppendur, ýmist hrósuðu okkur eða bölvuðu. Þau voru ófyrirsjáanleg viðbrögðin. Urðuð þið fyrir aðkasti? Já já, einhverjir hrópuðu að okkur bæði lofi og lasti. Það var rafmagnað, pólariserað og bland beggja,“ sagði Matthías Tryggvi í viðtali við Björn Malmquist fréttamann.
Ástandinu í Palestínu haldið frá almenningi í Ísrael
Magnús Þorkell segir að viðbrögðin við því að lyfta klútunum með palestínska fánanum hafi ekki komið á óvart.
„Í Ísrael er þetta mjög viðkvæm staða og Ísraelar, sérstaklega þegar athygli heimsins er á þeim, þá hafa þeir miklar áhyggjur af því að það sé verið að vekja athygli fólks á þessum málefnum. Þess vegna held ég að þeir hafi alltaf verið að bíða eftir því að listamennirnir eða aðrir myndu vekja máls á þessu meðan á þessari keppni stóð. Og þess vegna, þegar kom að þessu, þá brugðust þeir svona við. Kannski bjuggust þeir við enn frekari aðgerðum en raun bar vitni.“
Magnús segir að ekki sé bannað að sýna palestínska fánann í Ísrael. Fáninn sé þó ákveðin ögrun við Ísraela því fyrir þeim sé hann tákn óvinarins. Auk þess vilji þeir ekki minna almenna ísraelska borgara á þennan veruleika, sérstaklega ekki í Tel Aviv.
„Þess vegna er takmarkaður aðgangur að Vesturbakkanum og Gaza. Ef þú vilt ferðast þar um þá er tiltölulega erfitt að komast inn og út. Þá ertu spurður spurninga og þeir eru búnir að byggja upp þennan stóra múr og þeir Ísraelar sem búa á Vesturbakkanum, í byggðunum þar, eru með sína sérstöku vegi þannig að þeir þurfa ekki að horfast í augu við raunveruleikann sem þar er. Og í raun og veru, þeir einu Ísraelar sem þurfa að hafa eitthvað með Palestínumenn að gera á Vesturbakkanum og Gaza eru hermennirnir, þannig að þetta er ekki lengur hluti af daglegu lífi eins og þetta var fyrir 15 til 20 árum.“
Ísraelar hernámu Vesturbakkann og Gaza árið 1967
Hatarar sögðu í viðtölum að þeir vonuðu að hernámi Ísraela á löndum Palestínumanna lyki. Ísraelar hernámu Vesturbakkann frá Jórdaníu og Gaza-svæðið frá Egyptalandi árið 1967. Þeir eiga að fylgja lögum alþjóðasamfélagsins um hernumin svæði en hafa ekki gert það.
Frá 1967 hafa allar friðarviðræður snúist um tvö ríki, Ísrael og stofnun sjálfstæðrar Palestínu á Gaza og Vesturbakkanum. Það hefur ekki gengið og hafa Ísraelar þvert á móti reist nýjar landnemabyggðir á herteknu svæðunum.
„Og þeir eru búnir að taka yfir landsvæði, vatnsból sérstaklega og eru búnir að byggja upp varanleg mannvirki sem má ekki undir alþjóðalögum, ef við skilgreinum þetta sem hernám. Þegar talað er um að hernáminu lýkur þá er verið að tala um að Palestínummenn fái sjálfstæði, fái sjálfstætt ríki, hafi stjórn á eigin landi og Ísraelar eigi ekki neinn meiri rétt á að vera þar frekar en Íslendingar.“
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ályktað gegn þessari hegðun Ísraela en þeir hafa ekki farið eftir þeim ályktunum. Þeir líta svo á að það sem þeir eru að gera sé nauðsynlegt fyrir öryggi Ísraela.
Hörmungarástand á Gaza
Ástandið á Vesturbakkanum og Gaza er mjög slæmt og hefur ekki batnað á liðnum 20 árum.
„Efnahagslífið, sérstaklega í Gaza, er hörmungarástand. Það kemst nánast ekkert inn og út úr Gaza nema Ísraelar stjórni því. Á Vesturbakkanum er aðeins skárra atvinnulíf og aðeins betra efnahagsástand en það er t.d. mjög erfitt fyrir hinn venjulega Palestínumann að ferðast, hvort sem um er að ræða Palestínu eða til útlanda.“
Þegar Gyðingar lýstu yfir stofnun Ísraelsríkis í maí 1948 voru um sjö hundruð þúsund Palestínumenn hraktir frá heimilum sínum, fluttir nauðungarflutningum. Þeir og afkomendur þeirra eru flóttamenn enn þann dag í dag, í Ísrael eða í öðrum ríkjum Araba. Mannréttindi eru brotin á Vesturbakkanum og Gaza daglega.
Ísrael og ísraelskar vörur sniðgengnar í vaxandi mæli
Oft þegar mannréttindabrot eru framin setur alþjóðasamfélagið á viðskiptabann eða bregst við á einhvern hátt. Það hefur ekki verið gert vegna ástandsins í Palestínu. Ísraelar eru í miklum viðskiptum við Evrópusambandið.
„Það hefur smám saman verið að aukast að fólk sniðgengur Ísrael og ísraelskar vörur og Ísraelar hafa einmitt mjög miklar áhyggjur af því hvaða áhrif það mun hafa. Til dæmis hafa nokkrir norskir bankar og hollenskir lífeyrissjóðir og fleiri ákveðið að fjárfesta ekki í Ísrael eða taka við fjárfestingum þaðan. Ýmsir listamenn hafa líka sniðgengið Ísrael og ísraelskar vörur.“
Ísraelar velti nú fyrir sér hvort það borgi sig að tengjast Evrópu svona nánum böndum eins og raunin er vegna þessarar gagnrýni. Í ríkjum Asíu séu menn hins vegar ekki eins uppteknir af þessu máli og Vesturlandabúar.
Magnús segist ekki vita hvort aðgerðir Hatara breyta stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs.
„Ég held að þetta sé fyrst og fremst mjög táknrænt og ég veit ekki hvort eða hvaða afleiðingar þetta mun hafa, ef einhverjar.“