Ísland hefur mikið fram að færa, annað en fjármagn, segir sérfræðingur í þróunaraðstoð frá Kenía. Hann ólst sjálfur upp í SOS-barnaþorpi og segir aðgang að góðri menntun hafa breytt öllu.
Samburu Wa-Shiko var hér á landi og sagði frá reynslu sinni af SOS-barnaþorpinu í Mombasa í Kenía. Hann segir það hafa breytt miklu fyrir sig að fá nýtt heimili þar. „Maður fékk á tilfinningunni að tilheyra. Þar var séð fyrir tilfinningalegum, sálrænum og líkamlegum þörfum. Við áttum SOS móður sem sá um mjög mörg okkar; SOS móðir mín var móðir heillar þjóðar. Hún annaðist um þrjátíu börn á lífsleiðinni. Hún var verndari okkar og fyrirvinna, kennari okkar; hún var allt í öllu fyrir okkur,“ segir Samburu.
Hann er enn í góðu sambandi við SOS-móður sína, sem nú er 75 ára. „ Ég er nú í aðstöðu til, af því ég hef vinnu, að annast um hana og systkini mín einnig frá SOS.“
Góð menntun breytti öllu
Samburu segir aðgang að góðri menntun hafa breytt öllu. Hann fékk styrk til frekara náms og lauk meðal annars doktorsprófi frá Manchester-háskóla. Hann er sérfræðingur í þróunaraðstoð og hefur starfað í mörgum Afríkuríkjum fyrir fjölda alþjóðlegra stofnana og er nú yfirráðgjari hjá stofnun Bill og Melindu Gates. Hann segir Íslendinga á meðal þeirra sem veiti hvað mest fé í þróunaraðstoð miðað við höfðatölu en segir einnig að Ísland hafi fleira fram að færa.
„Ég hef komist að því um Ísland, og það hefur sannarlega opnað augu mín, að fyrir aðeins hundrað árum voru Íslendingar sárafátæk þjóð. En Íslendingar hafa sýnt heiminum og sýnt mér að það sé mögulegt að sýna úthald, nýsköpun og sanna forrystu; allt er það nauðsynlegir eiginleikar til að þróa samfélög og þjóðir. Mér þætti afar vænt um ef Ísland væri opnara fyrir að deila reynslu sinni með þjóðum heims,“ segir Samburu.